Hópur útskriftarnema frá Menntaskólanum á Akureyri er nú á leið í rútum til Keflavíkurflugvallar þar sem ekki var hægt að lenda flugvélinni á Akureyrarflugvelli sem átti að flytja nemana til Portúgal í sjálfa útskriftarferðina.
Vélin, sem hafði verið í Keflavík í nótt, átti upprunalega að leggja af stað klukkan átta í morgun frá Akureyri. Ekki var þó hægt að fljúga vélinni til Akureyrar vegna erfiðra veðurskilyrða.
Hópurinn hafði lokið innritun og farið í gegnum öryggisleit á Akureyri þegar ljóst varð að vélin myndi ekki ná að lenda þar.
Munu nemendurnir þurfa að endurtaka það ferli á Keflavíkurflugvelli síðar í dag þar sem vélin er nú stödd.
Magnús Máni Sigurgeirsson, skemmtanastjóri Skólafélagsins, segir nemendur fagna yfir því að ferðinni hafi ekki verið aflýst og að góð stemning sé um borð í rútunni þrátt fyrir að flestir hafi vaknað um klukkan fimm í morgun.
„Þetta verður langur dagur,“ segir Magnús Máni.
Þurfið þið þá ekki að leggja ykkur á leiðinni?
„Jú ég geri ráð fyrir því að við munum aðeins dotta.“
Þegar blaðamaður náði tali af Magnúsi var hópurinn kominn í Öxnadal.
„Hér er fönn yfir öllu. Það er allt hvítt,“ segir Magnús sem kveðst spenntur fyrir því að komast í sólina.
„Það er mikil tilhlökkun að losna við veðrið hér. Veðurspáin er góð í Portúgal.“