Fjölmennt var í Háskólabíó á föstudaginn er 183 stúdentar brautskráðust frá Kvennaskólanum í Reykjavík.
Katrín Hekla Magnúsdóttir er dúx skólans í ár með ágætiseinkunnina 9,82. Hlaut hún einnig verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði og jarðfræði.
Ingunn Guðnadóttir er semídúx skólans með 9,7 í meðaleinkunn og hlaut einnig verðlaun í íslensku og fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum.
Ida Karólína Harris hlaut einnig sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni en verkefnið fjallaði um hvernig skilningur á læknisfræðilegum áskorunum kvenna hefur mótað þekkingu á legslímuflakki. Hún hlaut einnig Menntaverðlaun Háskóla Íslands en hún hefur staðið sig afbragðs vel í námi alla skólagönguna og verið mikil fyrirmynd í umhverfismálum bæði innan skólans og utan.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari ávarpaði nemendur með þökkum fyrir sjálfstæði og hugrekki sem hafi almennt styrkt skólaandann.
Í tilkynningunni kemur fram að Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari hafi hvatt nemendur leggja góðmennsku í lífinu framar öðru og vitnaði þar í söguna um bræðurna Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren.
María Margrét Gísladóttir hlaut Stúdentspennann, verðlaun fyrir besta lokaverkefnið. Verkefni hennar fjallar um hvað þurfi til að gera plánetuna Mars lífvænlega fyrir menn. Þá hlaut hún einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði.
Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1874 af hjónunum Þóru og Páli Melsteð og var fyrsti skólinn sem bauð konum upp á formlega menntun.
Stofnun skólans var stór hluti af kveinréttindabaráttunni við lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Markaði hún djúp spor í átt að framförum á vegi jafnréttisbaráttunnar.
Skólinn veitti meðal annars menntun í hannyrðum, tónlist og bóklegum greinum. Árið 1979 varð skólinn framhaldsskóli. Það er ekki laust við að nútímakonan haldi merkjum baráttu formæðra okkar á lofti með slíkum námsárangri.