Aldrei fleiri sótt um í HR: Meirihluti karlmenn

Aldrei áður hafa jafn margir sótt um nám í HR. …
Aldrei áður hafa jafn margir sótt um nám í HR. Skólinn er eini háskólinn á Íslandi sem er fjármagnaður að hluta með skólagjöldum. mbl.is/Árni Sæberg

Aldrei hafa eins margir sótt um nám í Háskólanum í Reykjavík (HR) en fyrir haustönn 2024. Tæplega 4.400 umsóknir hafa borist skólanum fyrir komandi haustönn, að meðtöldum óyfirförnum umsóknum erlendis frá.

Karlmenn eru rúmlega helmingur þeirra sem sóttu um nám.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR. Umsóknarfrestur um grunnnám rann út í gær og umsóknarfrestur um meistaranám rann út 30. apríl. Enn þá er opið fyrir umsóknir um nám í háskólagrunni til 15. Júní og því líkur á því að umsóknum muni fjölga enn frekar.

Yfirfarnar umsóknir í ár eru 2894 en voru á sama tíma í fyrra 2.871. Alls voru en í fyrra 4.200 umsóknir og því fjölgar umsóknum um að minnsta kosti 200.

Viðskipta- og hagfræðideild vinsælust

„Fjöldi umsókna í grunnnám, meistaranám og doktorsnám er á pari við síðasta ár, en þá fjölgaði t.d. umsóknum í grunnnám mikið, og umsóknum um skiptinám og nám í Háskólagrunni fjölgar í ár. Þá eru ívið fleiri karlar á meðal umsækjenda eða um 53%,“ segir í tilkynningunni.

Flestar umsóknir bárust um nám við viðskipta- og hagfræðideild og fjölgar umsóknum þar á milli ára um tæp 4%. Næstflestar umsóknir bárust um nám við verkfræðideild þar sem umsóknum fjölgar um tæp 16% á milli ára.

Þá fjölgaði umsóknum um nám við iðn- og tæknifræðideild um rúm 10%.

Eini háskólinn fjármagnaður að hluta með skólagjöldum

„Það er mjög gleðilegt fyrir okkur í HR að sjá umsóknum fjölga eftir krefjandi vetur og ekki síst í ljósi þess að við erum nú eini háskólinn á Íslandi sem er fjármagnaður að hluta með skólagjöldum. Ég lít svo á að þetta sé einn besti vitnisburðurinn um það góða starf sem fer hér fram þar sem við leggjum allt okkar í að veita nemendum framúrskarandi menntun ásamt góðri og persónulegri þjónustu við bestu mögulegu aðstæður, þar sem allt er undir einu þaki,“ er haft eftir Ragnhildi Helgadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, sem kveðst hlakka til þess að hitta nýnemana.

„Við erum ótrúlega spennt að taka á móti nýjum nemendum. Einhverjar deildir munu strax núna í júní bjóða nemum í heimsókn og svo erum við venju samkvæmt með skemmtilega nýnemadaga í ágúst. Ég hlakka svo sannarlega til að taka á móti þessu flotta fólki og veit að það mun auðga okkar góða samfélag hér í HR.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert