Áttu von á neitun í ár

Björgunarsveit Hornafjarðar reiðir sig nú á frjáls framlög.
Björgunarsveit Hornafjarðar reiðir sig nú á frjáls framlög. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur Smári Torfason, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, segir í samtali við mbl.is að ákvörðun Vatnajökulsþjóðgarðs um að hætta flugeldasýningu, sem félagið hefur staðið fyrir síðustu ár, hafi ekki komið sér á óvart. 

„Við höfum alveg eins búist við þessu svari. Það var þannig búið að undirbúa okkur frá árinu áður, að við gætum átt von á neitun í ár,“ segir Finnur

Í tilkynningu þjóðgarðsins í fyrra segir að nauðsynlegt sé að björgunarsveitin leiti sér annarra leiða sem samræmist betur umhverfissjónarmiðum þjóðgarðsins.

Þá er einnig kveðið á í svari þjóðgarðsins á síðasta ári að umsókn um flugeldasýningu að ári muni að öllum líkindum ekki hljóta brautargengi. 

Reiða sig á frjáls framlög

Finnur segir að Björgunarfélag Hornafjarðar sé ekki farin að leita annarra leiða til að fjármagna sig, en flugeldasýningin var ein helsta tekjulind félagsins. 

Fram undan eru tvö stór verkefni hjá félaginu. Annars vegar er það bygging nýs björgunarsveitarhúss fyrir starfsemi Björgunarfélags Hornafjarðar og Slysavarnadeildarinnar Framtíðarinnar og hins vegar kaup og breyting á nýrri bifreið sem verður notuð til leitar og björgunarstarfa hjá sveitinni.

Finnur segir að þau hafi rætt við fyrirtæki í heimabyggð um styrk til björgunarfélagsins sem hann segir að hafi gengið nokkuð vel. 

Þá hafi þau hlotið styrk upp á 200 milljónir frá Skinney-Þinganes fyrir nýja húsnæðinu en áætlað er að heildarkostnaður við húnsæðið muni nema allt að 450 miljónum. 

Skoða nýjan stað fyrir flugeldasýningu

Hann segir það óneitanlegt að björgunarsveitin þurfi að leita annarra leiða til að fjármagna sig og hafa einhverjar blikur verið á lofti í þeim efnum.

Ein hugmynd er að færa flugeldasýninguna á nýjan stað. Þá segir Finnur að ekki sé hægt að gefa upp hvaða staður hefur komið til skoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka