Nákvæm dánarstund liggur ekki fyrir og dánarorsök óljós

Lögreglan á Vestfjörðum segir bráðabirgðaniðurstöður krufningar vegna andláts tveggja einstaklinga í heimahúsi í Bolungarvík liggja fyrir. Lögreglan segir að dánarorsök sé ekki ljós.

„Ekki voru ytri áverkar á hinum látnu sem skýra andlátin. Nákvæm dánarstund liggur ekki fyrir,“ segir í tilkynningu frá lögreglu, sem ítrekar að það sé ekkert sem bendi til þess að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti. 

Endanlegrar niðurstöðu að vænta á næstu vikum

Lögreglan hefur birt tilkynningu á Facebook, þar sem tekið er fram að réttarlæknisfræðileg rannsókn hafi farið fram á hinum látnu að ósk lögreglu. Um sé að ræða lið í rannsókn á tildrögum andlátanna.

„Fyrir liggja bráðabirgðaniðurstöður réttarkrufningar. Dánarorsök er ekki ljós en endanlega niðurstöðu er að vænta á næstu vikum. Ekki voru ytri áverkar á hinum látnu sem skýra andlátin. Nákvæm dánarstund liggur ekki fyrir.

Eins og áður hefur verið getið um er ekkert sem bendir til þess að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert