Segir málflutning Jódísar óábyrgan

Jón Gunnarsson segir aðspurður að málflutningur Jódísar sé óábyrgur.
Jón Gunnarsson segir aðspurður að málflutningur Jódísar sé óábyrgur. Samsett mynd/mbl.is/Hákon

Málflutningur Jódísar Skúladóttur, þingmanns Vinstri grænna, um störf lögreglumanna er óábyrgur. Þá er það áhyggjuefni að meiri harka sé að færast í mótmæli á Íslandi.

Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

„Hann er mjög óábyrgur og við stjórnmálamenn eigum ekki að tala svona, vegna þess að þetta er þvert á það sem fyrir liggur að eru staðreyndir máls,“ segir Jón um málflutning stjórnarþingmannsins.

„Við eigum ekki að vekja upp ótta meðal landsmanna, lögreglan hefur góð tök á þessum málum að mínu mati og ég treysti þeim fullkomlega til að meta aðstæður á hverjum tíma,“ segir hann enn fremur, spurður að því hvort að hann telji ummæli Jódísar ábyrg.

Hann bætir því við að engin þolinmæði sé innan lögreglunnar fyrir því að lögreglumenn gangi of langt í sínum störfum.

Treystir lögreglunni 

Jó­dís sagði á Alþingi á dögunum að hún læsi nær dag­lega um lög­reglumenn sem fari offari í aðgerðum sín­um og beiti valdi og hörku gegn al­menn­um borg­ur­um.

Fjöln­ir Sæ­munds­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann myndi hafa samband persónulega við Jódísi vegna málflutnings hennar.

Í síðustu viku beittu lög­reglu­menn piparúða gegn mót­mæl­end­um þar sem þeir lágu á veg­in­um og hindruðu för ráðherra að lokn­um fundi rík­is­stjórn­ar við Skugga­sund.

Jón kveðst ekki hafa verið á staðnum og því sé ótækt fyrir hann að tjá sig um það hvort að lögreglan hafi brugðist rétt við.

„Ég treysti bara lögreglunni til að bregðast við með viðeigandi hætti þegar ástandið er orðið eins og þeir meta það. Það er erfitt að leggja mat á þetta, verandi utanaðkomandi. En mín reynsla og þekking á lögreglunni er sú að við getum treyst henni til að meta aðstæður á hverjum tíma,“ segir Jón og bætir við:

„Hvert skref sem að áhættan er meiri þá ábyrgðin þeirra meiri við að tryggja öryggi þeirra sem þeir eiga að gæti öryggis fyrir – borgara og stjórnvalda.“

Aukin harka í mótmælum áhyggjuefni

Búið er að greina frá því að engir mótmælendur verði ákærðir í kjölfar mótmælanna og segir Jón að það sé lögreglunnar að meta það hvort að það sé tilefni til að ákæra menn fyrir borgaralega óhlýðni.

Að undanförnu hafa komið upp nokkur dæmi þar sem mótmæli hafa gengið lengra en hefðbundið er. Til dæmis þegar karlmaður hékk utan á handriði þingpallanna á Alþingi og hótaði að stökkva, og svo þegar ráðist var að bifreið Diljár Mistar Einarsdóttur og þegar glimmeri var kastað yfir Bjarna.

„Það er áhyggjuefni að við skulum vera sjá aukna hörku vera að færast í þessi mótmæli og það er auðvitað ólíðandi. Við eigum að hafa alla þolinmæði gagnvart eðlilegum og friðsælum mótmælum, það er réttur fólks, en um leið og þetta er farið að breytast í það sem birtist okkur til að mynda á Alþingi um daginn, þá er þetta orðið alvarlegt og farið að ógna öryggi fólks. Slík framkoma er óþolandi,“ segir Jón.

Lögreglunnar að meta að hverju sinni

Hann kveðst vonast til þess að mótmæli verði áfram friðsæl á Íslandi eins og þau hafa almennt verið eftir hrunárin.

„En það þarf auðvitað að taka föstum tökum á því ef menn telja að þeir séu að missa tök á aðstæðum og það er lögreglunnar að meta það á hverjum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert