Ný bruggstofa RVK Bruggfélags opnar loksins í Tónabíó í Skipholti á þriðjudaginn, næstum því ári á eftir áætlun. Einnig er stefnt á að opna bíósal í húsinu í ágúst eða september en hann átti að líta dagsins ljós í nóvember síðastliðnum.
Mbl.is greindi frá því í lok júní í fyrra að nýja bruggstofan, sem tekur 100 manns, yrði opnuð síðar um sumarið og að bíóið, sem tekur 270 manns, myndi opna síðar það ár en babb kom í bátinn.
Að sögn Sigurðar P. Snorrasonar, framkvæmdastjóra RVK Bruggfélags/Vandaðs ehf. og eins af forsvarsmönnum Tónabíós, var allt saman tilbúið í nóvember og lokaúttekt komin og starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu þegar slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu setti út á húsnæðið.
Vandamálið snerist um að tveir ólíkir rekstraraðilar áttu að vera í húsinu, þ.e. fyrir brugghúsið og bíóið, sem ætluðu að deila sameiginlegum salernum og flóttaleiðum. Slíkt er ekki leyfilegt og því þurfti að ráðast í endurhönnun húsnæðisins. Sömuleiðis þurfti RVK Bruggfélag að taka að sér rekstur bíósalarins en það var aldrei í upprunalegu plönunum, greinir Sigurður frá. Hann verður því framvegis titlaður sem bíóstjóri til að geta selt bjór í húsinu.
Spurður segir Sigurður það hafa verið vonbrigði að þurfa að bíða allan þennan tíma eftir grænu ljósi frá yfirvöldum.
„Ég hélt að ég væri að fara opna fyrstu vikuna í nóvember þegar það var sett stopp á þetta en við finnum fyrir rosalegri eftirvæntingu og spenningi bæði hjá okkar fastagestum í litlu bruggstöðinni og okkar nágrönnum,” svarar Sigurður, sem er að vonum spenntur fyrir opnuninni á þriðjudaginn sem verður frá klukkan 16 til 23.
Tónabíó var opnað í byrjun sjöunda áratugarins með tekk-innréttingum þess tíma og tilheyrandi íburði. Breytingar urðu síðar á húsnæðinu með tilkomu Vinabæjar og vék eitthvað af gamla stílnum við það.
„Við erum að reyna að færa húsið aftur til þess tíma sem það var þá og gera það þannig úr garði að þér líði eins og þú sért að stíga aftur í tímann,” lýsir Sigurður.
RVK Bruggfélagið hefur starfrækt tvö brugghús í Skipholti síðustu árin. Smærra brugghúsið er í Skipholti 31 en það stærra í viðbyggingu skammt frá við hús Tónabíós í Skipholti 33. Það brugghús er áttfalt stærra en hið fyrrnefnda.
Að sögn Sigurðar eru tónlistarviðburðir fyrirhugaðir í bruggstofunni. Þar eru hæg heimatökin því fyrir ofan Tónabíó er Menntaskólinn í tónlist og í húsinu við hliðina starfrækir Listaháskóli Íslands tónlistardeild. „Við finnum fyrir miklum áhuga hjá þeim varðandi samstarf,” segir hann.