Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð, telur mjög líklegt að sveitarfélagið ákveði að vinna nýtt deiliskipulag í Brákarey út frá tillögum fasteignaþróunarfélagsins Festis að nýju rammaskipulagi fyrir eyjuna.
Hugmyndir Festis að nýju rammaskipulagi fyrir Brákarey í Borgarnesi voru kynntar á fjölmennum íbúafundi í Hjálmakletti í Borgarnesi í gærkvöldi. Tillögurnar fela í sér að gamalt skipulag víki fyrir nýju og að í Brákarey verði veglegt og skjólgott miðbæjartorg þar sem ýmist verður atvinnustarfsemi, íbúðarhúsnæði, hótel og baðlón.
„Ég er mjög ánægð að sjá viðbrögðin. Ég er svo ánægð líka að sjá mætinguna, hún endurspeglar svo mikið áhuga fólks á þessu svæði, þetta er svona einn fjölmennasti íbúafundur sem við höfum haldið,“ sagði Guðveig í samtali við mbl.is að fundinum loknum, en Guðveig hefur setið í sveitastjórn frá árinu 2014.
„Mér heyrist flestir vera mjög bjartsýnir og spennir fyrir þessu. Eðlilega hefur fólk mismunandi skoðanir, en við höfum verið að öfundast út í sveitarfélög sem hafa farið í svona stóra uppbyggingu. Eins og Selfoss og Siglufjörð þar sem hefur verið mikil uppbygging,“ segir Guðveig og útskýrir að kallað hafi verið eftir samskonar uppbyggingu í Borgarnesi.
„Þannig að nú er bara komið að okkur hér, en þá þurfum við líka að hafa sjálfstraustið til þess að fara af stað í svona verkefni, við megum ekki vera lítil í okkur.“
Guðveig segir Brákarey einstakan og óslípaðan demant og kveðst þess full viss að til lengri tíma litið þá eigi íbúar sveitarfélagsins eftir að vera mjög stoltir af verkefninu. Þarna verði líf sem bæði íbúar sveitarfélagsins, framtíðarkynslóðir, ferðamenn og gestir eigi eftir að njóta.
„Eyjan á eftir að iða af lífi eftir nokkur ár.“
Nú voru einhverjar efasemdaraddir á fundinum um að þetta yrði að veruleika. Það hafa verið lagðar fram margar tillögur í gegnum árin um uppbyggingu í eyjunni. Hvernig metur þú líkurnar á því að þetta verði að veruleika?
„Ég er bjartsýn á að þetta verði að veruleika. Það hefur verið þannig síðustu ár að sveitarfélagið hefur komið með tillögur og unnið með stofum að bæði tillögum um uppbyggingu úti í eyju og að nýju skipulagi. Það er bara alveg ljóst, hvort sem það er hér eða í öðrum sveitarfélögum, að svona verkefni verður aldrei að veruleika nema við fáum fjárfesta að borðinu,“ segir Guðveig og bætir við:
Hún segir það til góða að síðustu ár hafi verið unnin vinna þar sem möguleikar eyjunnar voru skoðaðir og íbúar spurðir hvað þeir vildu helst sjá í eyjunni.
„En við höfum aldrei verið á þeim stað áður að það komi fjárfestar til okkar og segi: „Við höfum trú á þessu, við viljum taka þátt í þessu og við erum reiðubúin að fjárfesta í þessu.“ Við höfum ekki verið á þeim stað áður og þess vegna hef ég trú á því að við séum að fara á einhvern stað núna.“
Eins og áður hefur komið fram krefst umrætt skipulag þess að núverandi skipulag í eyjunni víki. Spurð hvernig samið verði við þá sem nú eiga húsnæði í eyjunni svarar Guðveig að það sé vilji sveitarfélagsins að Borgarbyggð hafi milligöngu um að koma þessum aðilum á annan stað.
„Við viljum að þau fyrirtæki sem eru þarna haldi áfram að vaxa og dafna í sveitarfélaginu af því að þau eru okkur alveg jafn mikilvæg og annað sem mun koma þarna síðar,“ segir Guðveig og bætir við:
„Ég yrði ekkert hissa á að niðurstaðan yrði sú að sveitarfélagið yrði sá aðili sem myndi kaupa þessa aðila út úr fasteignunum. [...] Við viljum að það sé góður bragur á því hvernig núverandi starfsemi í eyjunni muni víkja og ég hef trú á því að þessi fyrirtæki geti öll haldið áfram sinni starfsemi á öðrum og ef til vill heppilegri stað.“
Aðspurð segir hún að um leið og sveitastjórn taki ákvörðun um að vinna deiliskipulag út frá umræddum hugmyndum þá muni hefjast samtal við núverandi eigendur um framhaldið.
Telur þú líklegt að sveitarfélagið muni taka ákvörðun um að vinna deiliskipulag út frá hugmyndunum?
„Já ég tel það mjög líklegt. Hljómgrunnurinn í sveitastjórn allri, þvert á flokka, er þannig að ég á ekki von á öðru en að það verði unnið deiliskipulag út frá þeim hugmyndum sem voru hér kynntar.“