„Ég kvíði fyrir að fara þarna út!“

Varplandið í Hólmanum á Borgarfirði eystri.
Varplandið í Hólmanum á Borgarfirði eystri. Ljósmynd/Aðsend

Æðarbændur á Austfjörðum hafa miklar áhyggjur eftir veðurofsann síðustu daga.

„Hræðilegt, öll þessi rigning sem er búin að vera þá er dúnninn meira og minna ónýtur,“ sagði Helga Erla Erlendsdóttir, æðarbóndi á Borgarfirði eystri. „Ég kvíði fyrir að fara þarna út!“

Æðarfuglinn kom seint upp á Hólmann og var ekki allur kominn þegar óveðrið skall á seinnipart mánudags. Í vetur var mjög brimasamt og fuglinn þurfti að fara inn á firði til að ná í æti. Fyrir óveðrið hafi 2/3 hlutar varpsins verið komnir.

Slæm áhrif á æðarvarpið og æðardúnstekjuna

Hvassviðrið sem var um tíma 20-30 m/s getur hrakið æðarkollurnar á brott svo þær yfirgefa hreiðrin.

Að sögn Helgu hafa einhverjar nú þegar gert það sem ekki verptu í skjóli. Sumar kollurnar verpa í lautir en í mikilli vætu fyllast þær af vatni.

Í fyrra voru rúm tvö þúsund hreiður í varplandinu, sem var besta árið. Allur dúnn kom til nytja. „En núna líst mér ekki svo vel á það. Við bíðum veðrið af okkur og sjáum þá hver útkoman er.“

Helga segir kaupanda dúnsins vera vel birgðan en hann muni fá allt sem þau ná.

Er nú fátt annað hægt að gera en bíða átekta þar til styttir upp. Í kjölfarið verður farið að vitja fuglanna og hey lagt í hreiðrin.  

Varplandið í Loðmundarfirði.
Varplandið í Loðmundarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Lítið sé hægt að gera til að aðstoða fuglinn

Helga, ásamt manninum sínum, hefur verið sjálfstætt starfandi æðarbóndi síðan 2017. Þau hafa þó unnið við æðardúnstekju í rúm tuttugu ár.

„Austfirðirnir eru þekktir fyrir mikla vætu,“ segir Helga „Ég man ekki eftir svona langvarandi veðri, stundum hafa komið hvellir en þetta er óvenjulegt.“

Helga segist ekkert hafa þorað að fara í varplandið af ótta við að hrekja fuglinn á brott. „Það er um að gera að leyfa þeim bara að liggja þegar hefur verið svo slæmt veður.“

Ólafur Aðalsteinsson æðarbóndi í Loðmundarfirði var sama sinnis um að ekki væri hægt að fara út í varplandið strax. Hann kveðst viss um að mikið af hreiðrum hafi skemmst og dúnninn spillst.

Ólafur hefur verið æðarbóndi í 24 ár og hefur svipaða sögu að segja. Segir hann að aldrei áður hafi komið svo langvarandi veðurhæð líkt og núna.

Laga þurfti girðinguna í kringum varplandið.
Laga þurfti girðinguna í kringum varplandið. Ljósmynd/Aðsend

Kollurnar berskjaldaðri

Að sögn Ólafs er í forgangi að fara út og laga girðingar í kringum varplandið sem fuku og skemmdust í óveðrinu en þær eiga að halda refinum frá varplandinu.

Pálmi Benediktsson æðarbóndi og aðstoðarmaður Ólafs bendir einnig á að kríuvarpið á söndunum fyrir framan varplandið eyddist alveg í óveðrinu. Kríurnar eru mikilvægar því þær haldi varginum frá, bæði ref og vargfugli.

„Það var svo svakalega hvasst að hreiðrin hafa væntanlega fokið út á haf og eggin með,“ segir Pálmi. Þeir vonast til að krían verpi aftur fljótlega en það eru alveg líkur á að hún geri það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert