Nítján ára karlmaður var í dag dæmdur í 12 ára fangelsi í Landsrétti fyrir að stinga 27 ára mann frá Póllandi til bana á bifreiðastæði við verslunina Fjarðarkaup í apríl í fyrra.
Hann hafði áður fengið 10 ára dóm í héraði, en Landsréttur þyngdi dóminn. Var talið sannað að maðurinn hafi stungið þann sem fyrir árásinni varð alls sex sinnum, með þeim afleiðingum að fórnarlambið lést.
Fjögur ungmenni voru ákærð í málinu, þar af þrír ungir menn fyrir að verða manninum að bana. Var fórnarlambið úrskurðað látið á vettvangi og vakti málið nokkurn óhug.
Aðal árásarmaðurinn var 18 ára og fimm mánaða þegar hann varð Pólverjanum að bana. Tveir aðrir menn undir lögaldri voru í héraði dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir sinn þátt í árásinni. Landsréttur þyngdi dóm þeirra í fjögur ár.
Sautján ára gömul stúlka hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm til fimm ára fyrir brot á hjálparskyldu, en hún tók árásina upp, í héraðsdómi.
Landsréttur mildaði dóm stúlkunnar í 6 mánaða skilorðsbundinn dóm til fimm ára.
Eins og mbl.is greindi frá á sínum tíma þá náðist atburðarásin að miklu leyti á upptöku í nokkrum mismunandi myndskeiðum. Virðast þau sýna það að upptök árásarinnar hafi verið vegna meintrar 5.000 króna fíkniefnaskuldar.
Fórnarlambið var stungið sex sinnum og lést af stungusári beint í hjartað. Alls liðu 8-9 mínútur frá upphafi árásar og þar til fórnarlambið lá í valnum.