Gefur ekki upp hvort hún bjóði sig fram í formann

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við skulum bara byrja á því að halda stjórnarfund og ákveða tímasetningu á landsfundi,“ segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi spurð hvort líklegt sé að hún gefi kost á sér í formannskjör Vinstri Grænna.

Eins og flestum er kunnugt sagði Katrín Jakobsdóttir sig úr flokknum og lét af embætti forsætisráðherra fyrir forsetakosningarnar. Er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, starfandi formaður sem stendur.

„Það verður fundur hjá stjórn VG í dag þannig stjórnarfundur mun væntanlega fjalla um það,“ segir Svandís spurð hvort hún viti hvort landsfundi flokksins verði flýtt.

„Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur tekið til starfa þannig þetta er allt í skýrari farvegi en þetta hefur verið,“ segir Svandís spurð hver staðan sé á málefnum Grindvíkinga.

„Framkvæmdanefndin fer vel af stað og það er mikilvægt að hún hafi skýrt umboð og sé í nánum samskiptum við Grindvíkinga,“ segir Svandís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert