„Ís­land er í dag Evrópu­met­hafi í kynja­ó­jafn­rétti“

Tryggvi Hjaltason, höfundur skýrslunnar.
Tryggvi Hjaltason, höfundur skýrslunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara rosa mikil tilfinningarússíbanareið í þessari vinnu. Við töluðum við yfir hundrað manns og að sjá allar þessar sláandi niðurstöður, og að við séum því miður líklega ekki enn þá komin á botninn í þessu, er þyngra en tárum taki.“

Þetta segir Tryggvi Hjaltason, faðir og höfundur skýrslu um stöðu drengja í menntakerfinu, sem kynnt var í gær.

Kynningarfundur um niðurstöðu skýrslunnar fór fram á Reykjavík Natura í gær og var fundurinn þétt setinn. Þar fluttu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmálaráðherra, erindi ásamt Þórdísi Jónu Sigurðardóttur, forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Tryggva Hjaltasyni, höfundi skýrslunnar.

Á fundinum var farið um víðan völl en var þó greinilegt að mikilvægi eftirfylgni, fyrri inngripa, aukinnar tungumálakennslu og nýrra námsgagna vógu þyngst. Auðveldlega mátti sjá að dapurleg staða drengja innan íslensks menntakerfis vakti óhug hjá gestum. Tryggvi segist þó, í samtali við mbl.is, vera upplitsdjarfur og vongóður en ráðherrarnir vilji greinilega taka málin föstum tökum.

„Þetta er ekkert náttúrulögmál“

Tryggvi segir ferðalagið að útgáfu skýrslunnar hafa verið erfiða rússíbanareið.

„Ég fyrst svona ramba inn á þetta 2018 í hlutverki mínu sem faðir sem með bakgrunn í greiningum, fór að taka saman gögn  [...] og það var þarna hálftvö um nóttina þegar ég var búinn að taka saman fullt af opinberum gagnapökkum og sá svona þessa heildarmynd, hvað hún er ótrúlega vel mæld og dapurleg. Ferðalagið þaðan og hingað er náttúrulega stráð miklum uppgötvunum, og flestum þeirra ekki góðum,“ segir Tryggvi. Samtöl síðasta árið við kennara og skólasamfélagið hafi sýnt fram á að vandamálin séu ekki eins alls staðar og lausnir sé víða að finna.

„Þetta er ekkert náttúrulögmál, þetta þarf ekki að vera svona við getum breytt þessu,“ segir Tryggvi enn fremur. Hann kveðst spenntur fyrir stórsókn í útgáfu nýrra námsgagna en með því sé hægt að bregðast við mismunandi getu barna hratt og örugglega. Þá vilji hann einnig sjá stundaskrár og húsnæði aðlagað að meiri hreyfingu fyrir börn en skýrt sé að það hafi góð áhrif á einbeitingu og frammistöðu. Einnig hafi skort skýr viðmið til þess að hjálpa kennurum að grípa inn í á viðeigandi máta.

„Þetta er náttúrulega ekki bara nema að litlu leyti kennaraverkefni, við foreldrarnir þurfum náttúrulega að sýna námi barnanna okkar metnað og áhuga og setja okkur inn í það og skilja hvernig við getum hjálpað þeim, og hvernig við getum hjálpað kennaranum. Þegar kennarinn er að miðla einhverju til okkar að við hundsum ekki bara tölvupóstinn,“ segir Tryggvi og nefnir mikilvægi þess að hugsa um hvernig sé hægt að vinna með skólanum og börnunum.

„Foreldrar kaupa 2,5 sinnum minna af bókum fyrir strákana sína“

Umræða skipti líka miklu máli en gjarnan sé minna vænst af strákum heldur en stelpum.

„Hvers konar væntingar erum við að setja á drengina okkar? Gríðarlega mikið talað um það að drengir í nútímaumhverfi í dag fá litlar sem engar væntingar, sérstaklega varðandi nám á meðan að stelpurnar fá miklar væntingar. Það er ætlast til þess að þær fari í háskóla og nái sér í góða bóknámsgráðu og annað en það er ekki bara þannig með strákana. Það var fullt af svona punktum sem komu í ljós í þessu sem voru sjokkerandi. Ég meina foreldrar kaupa 2,5 sinnum minna af bókum fyrir strákana sína heldur en stelpurnar sínar, sömu foreldrarnir. Það er bara öðruvísi hvernig við nálgumst börnin og að mörgu leyti er niðurstaðan bara eðlileg í því ljósi,“ segir Tryggvi.

Þá segir hann eina mest sláandi staðreynd skýrslunnar vera Evrópumetið sem Ísland eigi nú í ójafnrétti.

„Ísland er í dag Evrópumethafi í kynjaójafnrétti í menntakerfinu. Það er okkar verðlaunamedalía í dag, sem er ömurlegt, jafnréttislandið Ísland, þetta er ömurlegt. Ef við ætlum að byrja á einhverjum einum stað þá myndi ég segja að það væri tungumálið. Og við erum með eiginlega allt til staðar, við erum með mælitæki, við þroskamælum öll börn, við erum með heimsklassa leikskólakerfi sem er að mörgu leyti í vel stakk búið og er á mörgum stöðum á landinu að fylgja vel eftir, koma börnum aftur upp í viðmiðin. [...]

Á þessum aldri, 3, 4, 5 ára, þá er þetta svo ódýrt og kröftugt inngrip miðað við að ætla að gera þetta einhvern tímann þegar þú ert kominn með tvítugan karlmann og ég held ég sé að muna það rétt að fjögurra ára barn getur lært 400 ný orð á dag. Náum þeim þar,“ segir Tryggvi og nefnir að það að ná börnum upp í viðmið um 5 ára aldur tákni að 57% líkur séu á að barn verði á réttri leið og við viðmið í 10. bekk.

„Þarna eigum við að byrja inngripin. Ekki eins og í dag, í yfirgnæfandi meirihluta tilfella. Þau hefjast við 7.-10. bekk af því að þá eru komnir alvarlegir hegðunarbrestir, sem meðal annars eru út af tungumálaáskorunum,“ segir Tryggvi að lokum.

Skýrsluna má lesa í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert