Birta Hannesdóttir
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að nýtt eldgos hafi neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu.
Ferðamenn hafi í sífellu afbókað ferðir til landsins meðal annars vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Í lok síðasta árs sagði Jóhannes Þór að ýktur fréttaflutningur erlendra miðla væri meðal skýringa á þessu.
Spurður hvort hann hafi orðið var við breytingar á fréttaflutningi erlendis eftir að nýtt eldgos hófst við Sundhnúkagígaröðina segir hann að erfitt sé að stýra umfjöllun í stórum erlendum miðlum á borð við BBC og Sky News.
Jóhannes Þór kallar eftir að ráðist verði í einbeitta markaðsherferð til að fjölga ferðamönnum sem sækja Ísland heim. Það sé besta leiðin til að hafa áhrif á neytendur og sýna þeim hvað sé í raun og veru að gerast hér á landi.