Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, segir marga bændur í erfiðri stöðu vegna óvenju langrar kuldatíðar. Hann segir mikilvægt að hlúa að bændastéttinni og ljóst að ástandið sé farið að taka verulega á sálarlíf margra.
„Þó bændur séu þrautseigir, þolinmóðir og duglegir þá tekur þetta sinn skatt af þeim engu að síður. Nú er það bara spurning um úthaldið, að standa af sér veðrið og ótíðina.“
Trausti fór á fund Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra í gær þar sem tekin var ákvörðun um að setja saman hóp sem ætlað er að meta tjón bænda. Í hópnum eru fulltrúar frá matvælaráðuneytinu, Bændasamtökunum og Almannavörnum, auk þess sem fulltrúar frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins bættust við hópinn í dag.
Fyrsti fundur hópsins verður í dag og bindur Trausti vonir við að fá fregnir eftir hann um það hvernig viðbrögðin verði. Tíminn sé orðinn langur og ekki sjái fyrir endann á ástandinu.
Þú segir að umfang tjónsins komi jafnvel ekki í ljós fyrr en í haust, getur þú útskýrt það frekar?
„Það eru náttúrulega afleiðingar af svona vosbúð fyrir skepnur, ef maður tekur búpeninginn, að þá erum við að horfa á það geti orðið heljar mikið afurðartjón sem kemur ekki í ljós fyrr en líður á aðeins á árið,“ segir Trausti og bætir við:
„Svo má ekki gleyma eftir þessa kuldatíð að túnin eru víða ónýt eftir kal og fólk er ekki komið af stað í vorverkin sín. Það getur haft mikið áhrif á uppskeruna í sumar sem hefur svo áhrif á framleiðslugetuna árið á eftir. Þannig að þetta er ansi viðamikill vandi sem blasir við okkur og tekur tíma að ná utan um.“
Spurður hvað það er sem Trausti vilji sjá frá nýskipuðum hóp, sem ætlað er að reyna að ná utan um stöðuna, svarar hann að hópurinn þurfi fyrst og fremst að fá tíma til að setjast niður og átta sig á stöðunni.
„Fara yfir hvað veðrið er búið að vera verst, hvar er ástandið verst, hvar eru einfaldlega bændur sem þurfa aðstoð og hvað er hægt að gera fyrir þá. Vantar þá hey, vantar þá mannskap til aðstoðar, vantar þá einfaldlega aðhlynningu sjálfa?“
Trausti segir þetta allt atriði sem hópurinn muni fara yfir og framhaldinu verði hægt að reyna að ná utan um stöðuna. „Sem verður ekki síður mikil vinna,“ segir hann.
Trausti segir ljóst að á sumum svæðum á landinu sé staðan farin að taka verulega á sitt fólk. Það sé eitthvað sem Bændasamtökin taki mjög alvarlega og þurfi að bregðast við.
„Við þurfum að reyna að ná utan um hvar sé einfaldlega fólk sem þarfnast aðstoðar. Ég veit að bændur eru þannig gerðir að þeir eru seinir að viðurkenna vanmátt sinn,“ segir Trausti og bætir við:
„Ég minni enn og aftur á það að ef bændur eru að upplifa sig í neyð, varnarlausa, einangraða og eina, eða vita af nágrönnum í slíkri stöðu. Þá hvetjum við fólk til þess að hringja í 112, þá fer viðbragð í gang hjá almannavörnum.“