Leiðsögn, stéttarfélag leiðsögumanna, hefur ákveðið að leggja félagið niður. Félagsmenn munu þess í stað ganga í VR.
Félagsmenn munu kjósa um samrunann á næsta aðalfundi félagsins í apríl 2025. Verði tillagan samþykkt með hið minnsta 2/3 atkvæða hlýtur hún lagalegt gildi, segir í tilkynningu.
Á síðasta aðalfundi félagsins í apríl var ákveðið að leitast eftir mögulega samstarfi eða samruna við önnur stéttarfélög.
Stjórnin komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunum félagsins væri best borgið sem deild innan VR.
Þá segir í tilkynningu að stjórn VR hafi brugðist vel við beiðni Leiðsagnar og að búið er að skrifa upp samstarfssamning sem felur í sér áætlun um samruna Leiðsagnar við VR.
Þjónusta félagsins verður óbreytt fram að næsta aðalfundi og verður áfram með starfstöð í húsnæði sínu á Stórhöfða.
Samstarfssamningur félaganna kveður á um að VR muni koma beint að kjaraviðræðum Leiðsagnar við Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar.
„Þær viðræður hafa sem gott sem strandað, því við stöndum fast á okkar kröfum, meðal annars um heildarendurskoðun á núverandi kjarasamningi. Það er trú beggja aðila að samvinna félaganna um kjarasamning Leiðsagnar muni skila árangri og að fljótlega verður boðað til kynningarfundar um nýjan samning,“ segir í tilkynningu.
Leiðsögn mun með haustinu halda félagsfundi til þess að skýra betur fyrir félagsmönnum samninginn.