„Það hlýtur að koma til álita og jafnvel nauðsynlegt. Þetta eru alveg ógurlega miklar hörmungar sem ganga þarna yfir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun spurður hvort eitthvað verði gert til að koma til móts við bændur.
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, lýsti því í samtali við mbl.is fyrr í dag að margir bændur séu í erfiðri stöðu vegna óvenju langrar kuldatíðar. Hann segir mikilvægt að hlúa að bændastéttinni og ljóst að ástandið sé farið að taka verulega á sálarlíf margra.
„Maður finnur til með fólki sem er í búskap og á skepnur og þarf að búa við það að smala öllu saman þegar það er komið út á tún. Fyrir utan jörðina sjálfa sem maður veit ekki hvernig kemur undan þessum „mini“ vetri sem við fengum hérna í júní,“ segir Sigurður.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra stofnaði í dag viðbragðshóp sem ætlað er að meta tjón bænda vegan kuldatíðarinnar. Í hópnum eru fulltrúar frá matvælaráðuneytinu, Bændasamtökunum og almannavörnum, auk þess sem fulltrúar frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins bættust við hópinn í dag.