Virknin er enn stöðug í einum gíg í eldgosinu við Sundhnúkagíga sem hófst þann 30. maí og er það fimmta í röðinni á aðeins rúmu einu ári.
Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hafa ekki orðið neinar breytingar á gosinu frá því í gær og það malli áfram úr þeim eina gíg sem er virkur.
Engin skjálftavirkni er á svæðinu og hraunflæðið er að mestu leyti í áttina að Sýlingarfelli eins og hefur verið síðustu daga og hefur hraunið hlaðist þar upp.
Spáð er norðan átt í dag og berst gasmengun í átt til sjávar.