Lánsumsókn íslenska ríkisins til Þróunarbanka Evrópuráðsins er varúðarráðstöfun.
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is. Blaðamaður ræddi við Sigurð Inga að loknum opnum fundi Þróunarbankans á Hilton Reykjavík Nordica í morgun.
Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru fyrr á þessu ári, var ríkissjóði gefin heimild til að taka lán fyrir allt að 30 milljarða íslenskra króna, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í innlendri eða erlendri mynt, í því skyni að mæta mögulegri fjárþörf vegna þeirrar óvissu sem ríkir sökum jarðhræringa á Reykjanesi.
Þróunarbankinn er opinber alþjóðlegur banki og lánar fé á hagstæðum vöxtum. Eins og mbl.is greindi frá í gær sótti ríkið um lán til Þróunarbankans upp á um 22,5 milljarða íslenskra króna vegna hamfaranna í Grindavík. Lánið var samþykkt í dag.
Sigurður Ingi segir ríkið hafa fundið fyrir áhuga Þróunarbankans á að hjálpa Íslendingum vegna hamfaranna í Grindavík. Í kjölfarið hafi ríkið sótt um lán.
„Ein af ástæðum þess að við erum ein af átta þjóðum sem stofnuðum þennan Þróunarbanka árið 1956 voru áherslur hans á einmitt náttúruhamfarir og stuðning við ríki á því sviði. Þegar við upplifðum það sem við höfum verið að upplifa hér í Grindavík og fundum fyrir áhuga bankans á að styðja við, þá sóttum við um lán. Meira í varúðarskyni, því að hvorki þá né svo sem endanlega nú vitum við umfang þess sem að við erum að horfast í augu við í Grindavík. Þannig að við erum í varúðarskyni að sækja um lán, sem að myndi hjálpa okkur ef á þyrfti að halda,“ segir Sigurður Ingi og bætir við:
„Það er ekki ljóst hversu mikið við myndum draga á þetta lán eða hversu hratt.“
Ef lánið verður nýtt mun ríkið ráðstafa fjármagninu til að mæta fjárþörf vegna útgjalda í tengslum við stuðningsaðgerðir handa íbúum og heimilum í Grindavík. Stærsti kostnaðarliður ríkissjóðs í tengslum við þær aðgerðir er fasteignafélagið Þórkatla.
„Í samræmi við heimild fjáraukalaga, yrði jafngildi andvirðisins ráðstafað til að mæta fjárþörf vegna útgjalda í tengslum við stuðningsaðgerðir stjórnvalda til handa íbúum og heimilum í Grindavík. Stærsti kostnaðarliður ríkissjóðs varðar lánveitingu og hlutafjárframlags til handa Þórkötlu, félags sem stofnað var til að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis í Grindavík,“ segir í skriflegu svari fjármálaráðuneytisins til mbl.is.