Taka lán í varúðarskyni

Sigurður Ingi ræddi við mbl.is í dag um lánsumsókn ríkisins.
Sigurður Ingi ræddi við mbl.is í dag um lánsumsókn ríkisins. mbl.is/Eyþór

Láns­um­sókn ís­lenska rík­is­ins til Þró­un­ar­banka Evr­ópuráðsins er varúðarráðstöf­un.

Þetta seg­ir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, í sam­tali við mbl.is. Blaðamaður ræddi við Sig­urð Inga að lokn­um opn­um fundi Þró­un­ar­bank­ans á Hilt­on Reykja­vík Nordica í morg­un. 

Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru fyrr á þessu ári, var ríkissjóði gefin heimild til að taka lán fyrir allt að 30 milljarða íslenskra króna, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í innlendri eða erlendri mynt, í því skyni að mæta mögulegri fjárþörf vegna þeirrar óvissu sem ríkir sökum jarðhræringa á Reykjanesi.

Þróunarbankinn er op­in­ber alþjóðleg­ur banki og lán­ar fé á hag­stæðum vöxt­um. Eins og mbl.is greindi frá í gær sótti ríkið um lán til Þró­un­ar­bank­ans upp á um 22,5 millj­arða ís­lenskra króna vegna ham­far­anna í Grinda­vík. Lánið var samþykkt í dag.

Fundur Þróunarbankans hófst kl. 9.30 í morgun á Hilton.
Fundur Þróunarbankans hófst kl. 9.30 í morgun á Hilton. mbl.is/Eyþór

Fundu fyr­ir áhuga frá Þró­un­ar­bank­an­um

Sig­urður Ingi seg­ir ríkið hafa fundið fyr­ir áhuga Þró­un­ar­bank­ans á að hjálpa Íslend­ing­um vegna ham­far­anna í Grinda­vík. Í kjöl­farið hafi ríkið sótt um lán.

„Ein af ástæðum þess að við erum ein af átta þjóðum sem stofnuðum þenn­an Þró­un­ar­banka árið 1956 voru áhersl­ur hans á ein­mitt nátt­úru­ham­far­ir og stuðning við ríki á því sviði. Þegar við upp­lifðum það sem við höf­um verið að upp­lifa hér í Grinda­vík og fund­um fyr­ir áhuga bank­ans á að styðja við, þá sótt­um við um lán. Meira í varúðarskyni, því að hvorki þá né svo sem end­an­lega nú vit­um við um­fang þess sem að við erum að horf­ast í augu við í Grinda­vík. Þannig að við erum í varúðarskyni að sækja um lán, sem að myndi hjálpa okk­ur ef á þyrfti að halda,“ seg­ir Sig­urður Ingi og bæt­ir við:

„Það er ekki ljóst hversu mikið við mynd­um draga á þetta lán eða hversu hratt.“

Ríkið hefur veitt Grindvíkingum ýmsan stuðning.
Ríkið hefur veitt Grindvíkingum ýmsan stuðning. Ljósmynd/Otti Rafn Sigmarsson

Ef lánið verður nýtt mun ríkið ráðstafa fjármagninu til að mæta fjárþörf vegna útgjalda í tengslum við stuðningsaðgerðir handa íbúum og heimilum í Grindavík. Stærsti kostnaðarliður ríkissjóðs í tengslum við þær aðgerðir er fasteignafélagið Þórkatla.

„Í samræmi við heimild fjáraukalaga, yrði jafngildi andvirðisins ráðstafað til að mæta fjárþörf vegna útgjalda í tengslum við stuðningsaðgerðir stjórnvalda til handa íbúum og heimilum í Grindavík. Stærsti kostnaðarliður ríkissjóðs varðar lánveitingu og hlutafjárframlags til handa Þórkötlu, félags sem stofnað var til að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis í Grindavík,“ segir í skriflegu svari fjármálaráðuneytisins til mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert