Allur gangur er á stöðu æðarhreiðra á Austfjörðum þar sem veðurofsi hefur sett sitt strik í reikninginn. Oft hefur komið hret en annað eins veður hefur Helgi Þorsteinsson, æðarbóndi á Ytri-Nýp í Vopnafirði, vart séð á þessum tíma árs.
Spurður út í stöðuna á varpsvæðinu sínu segir Helgi ekki enn hafa getað kannað það. „Ég veit að það verður einhver skaði, þetta geta verið hundraðþúsundkallar eða milljónir, ég veit það ekki," svarar Helgi.
Hann er þó eins bjartsýnn og hægt er að vera við svona aðstæður.
„Þetta reddast, er það ekki mottóið?“
Erfiðast sé að geta ekkert nema beðið eftir að fari að hlýna. „Eitthvað sem maður verður bara lifa með og hefur alltaf gert.“
Helgi segir það fara alfarið eftir því hve mikið og hvenær hlýnar, upp á það hvernig hægt verði að bjarga því sem bjargað verður af dúni. Hann býst við því að dúnninn sé blautur en eins fljótt og auðið er mun hann taka blauta dúninn undan æðarkollunum og þurrka, svo hann skemmist ekki. Hann skiptir dúninum út fyrir hey.
Þegar rokinu og úrkomunni linnir getur Helgi loksins farið að hreiðrunum.
Varpið hans Helga er sérstakt að því leytinu til að það er svo þétt. Þarf hann því að hafa varann á þegar hann nálgast hreiðrin svo hann styggi ekki æðarkollurnar burt.
Helgi er með í kringum 3000 hreiður en varpið er óvenju seint í ár. Hann lítur á það sem ákveðinn kost því ef fleiri, eða allir ungarnir hefðu verið mættir, væru þeir dánir. Þá er slatti af æðarkollum sem eiga eftir að verpa og sumar ekki enn byrjaðar.
Spurður hvort Helgi sé bjartsýnn miðað við aðstæður segist hann alltaf reyna að vera bjartsýnn og bætir við að annars væri hann ekki í þessu.
„Ég tók þann pól að ég horfði á þetta í fjarlægð, enda ekki mikið meira sem ég gat gert. Ég hélt að allt myndi fjúka,“ segir Helgi.
Bóndin er með vaktskýli rétt við hreiðrin þar sem hann sefur stundum ef mikil þörf er á vöktun. Hélt hann að það myndi einnig fjúka.
„Þetta er aðalatvinnan mín, ég fullvinn dúninn og flyt út sængur og kodda."