Uppbygging Nýs Landspítala stenst kostnaðaráætlanir

Nýr Landspítali rís nú af grunni við Hringbraut.
Nýr Landspítali rís nú af grunni við Hringbraut. mbl.is/Árni Sæberg

Í uppfærðri heildaráætlun Nýs landspítala ohf. (NLSH) kemur fram að framkvæmdir standast kostnaðaráætlanir með aðeins um 0,6% fráviki.

Áætlaður kostnaður við hringbrautarverkefnið og annarra verkefna þeim tengdum er rúmlega 121,6 milljarðar króna fyrir árin 2024-2030.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Stýrihópur um skipulag framkvæmda við Landspítala og annarra sérhæfðra sjúkrahúsa hefur kynnt heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra uppfærða heildaráætlun NLSH.

Fylgir almennri verðlagsþróun

Í henni kemur fram að 0,6% frávik á kostnaðaráætlun sé óveruleg hlutfallsleg breyting í ljósi heildarumfangs verkefna NLSH og í ljósi krefjandi aðstæðna á heimsmarkaði.

„Þá skal einnig bent á að umtalsverðar hækkanir hafa verið á öllum megin vísitölum frá fyrri áætlun. Fylgir breytingin á heildarkostnaðaráætlun NLSH því almennri verðlagsþróun hér á landi frá október 2022 til febrúar 2024,“ segir í tilkynningunni.

Heildarfjárfestingin dreifist yfir langt uppbyggingartímabil, sem hófst árið 2010 og nær til ársins 2030.

Meðferðarkjarni tilbúinn árið 2027

Mikil uppbygging hefur átt sér stað við Hringbraut og upp sprettur nýr meðferðarkjarni. Áætlað er að byggingaframkvæmdum ljúki við nýjan meðferðarkjarna undir lok árs 2027 og í kjölfarið hefst yfirfærslutími þannig að spítalinn geti hafið starfsemi með nýjum tækjakosti og búnaði.

„Undir Hringbrautarverkefni falla meðferðarkjarni, rannsóknahús, bílastæða- og tæknihús, bílakjallari og ýmis stofnkerfi. Auk þess gatna-, jarðvegs- og veituframkvæmdir og sjúkrahótel sem tekið var í notkun 2019. Heildarkostnaðaráætlun meðferðarkjarnans sem er stærsta nýbyggingin eru 72 ma.kr. en um síðustu áramót hafði verið unnið fyrir 22 ma.kr.

Kostnaðaráætlun rannsóknahússins er 20,5 ma.kr., bílastæða- og tæknihússins 5,7 ma.kr. og bílakjallarans 2,5 ma.kr. Þá er gert ráð fyrir 9 ma.kr. í stofnkerfi tengt m.a. gatnagerð, jarðvegsframkvæmdum, tengigöngum og varaafli.“

15,5 milljarðar í sérhæfðar sjúkrahúsbyggingar

Áætlanir NLSH fyrir sérhæfðar sjúkrahúsbyggingar utan Hringbrautar liggja einnig fyrir. Um er að ræða nýbyggingu fyrir endurhæfingarþjónustu við Grensás og nýbyggingu til að hýsa legu-, dag- og göngudeildir við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Kostnaður er áætlaður tæplega 15,5 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka