„Við erum að vakta þetta mjög vel og erum auðvitað að huga að því koma enn frekari skilaboðum á framfæri um að íslands sé opið og að alþjóðaflugið hafi orðið fyrir nokkrum truflunum vegna þeirra jarðhræringa sem átt hafa sér stað.“
Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, þegar hún var spurð út í fækkun ferðamanna að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.
„Ég var nú með minnisblað í ríkisstjórn um hver þróunin hefur verið frá apríl 2023 til apríl á þessu ári og við sjáum að það er samdráttur á milli þessara mánaða. Við erum auðvitað bara að horfa til þessara hagtalna og þjóðhagslíkansins sem við erum nota, hvaða áhrif aukinn samdráttur gæti mögulega haft á bæði hagvöxt, atvinnustig og þróun gengisins.“
Líkt og mbl.is greindi frá í vikunni hafa veitingamenn þungar áhyggjur af gjaldþrotum í greininni og sagði Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, að veitingahús verði gjaldþrota nánast í hverri viku.
Lilja segir að ferðaþjónusta og veitingaþjónusta séu auðvitað náskyldar greinar og ferðaþjónustan þurfi á veitingageiranum mjög mikið að halda.
„Mikið af veitingafólki kvartar undan því að laun og vaxtaumhverfi fyrst og síðast, hafi þessi áhrif. Við sjáum að samdrátturinn varðandi gesti, hann hefur líklega minni áhrif ef við berum saman við laun og kjarasamninga og vaxtaumhverfi,“ segir Lilja.