„Við sjáum tækifæri í Borgarnesi sem áfangastað“

Róbert vonar að verkefnið verði tilbúið árið 2030.
Róbert vonar að verkefnið verði tilbúið árið 2030. Ljósmynd/Festir

Ró­bert Aron Ró­berts­son, fram­kvæmda­stjóri fasteignaþróunarfélagsins Festis, segir félagið sjá framtíð í Borgarnesi sem áfangastað. Hann vill draga fólk inn í bæinn og fækka þeim sem einungis keyra í gegn. 

Fjölmennt var á íbúafundi í Borgarnesi í gærkvöldi þar sem Festir kynnti tillögur að nýju rammaskipulagi fyrir Brákarey í Borgarnesi. Til­lög­urn­ar fela í sér að gam­alt skipu­lag víki fyr­ir nýju og að í Brákarey verði veg­legt og skjólgott miðbæj­ar­torg þar sem ým­ist verða íbúðarhúsnæði, at­vinnu­starf­semi, hót­el og baðlón.

Til­lög­urn­ar voru lagðar fram og unn­ar af Festi í fram­haldi af sam­komu­lagi við Borg­ar­byggð um hug­mynda- og skipu­lags­vinnu fyr­ir Brákarey sem var und­ir­ritað í ág­úst 2022.

Róbert Aron kynnir verkefnið.
Róbert Aron kynnir verkefnið. mbl.is/Theódór Kristinn Þórðarson

„Vantar segul inn í bæinn“

Róbert var á fundinum og svaraði spurningum viðstaddra að kynningu lokinni. Aðspurður segir hann viðbrögð fólks hafa að mestu leyti verið góð.

„Ég held að fólk sjái framtíð í þessu.“

Nú er þessi hugmynd sett fram ðf frumkvæði Festis. Hvers vegna langar ykkur að ráðast í framkvæmdir á þessum stað og hvaða tækifæri sjáið þið í verkefninu? 

„Við sjáum tækifæri í Borgarnesi sem áfangastað, en það vantar segul inn í bæinn,“ segir Róbert og bætir við: 

„Brákarey er náttúrulega ótrúlegur staður. Þetta er eyja sem er tengd með einbreiðri brú við lítinn bæ. Hún er í niðurníðslu, það þarf að taka hana í gegn og ef við gerum þetta á einhvern svona hátt þá held ég að við drögum fólk inn í Borgarnes.“ 

Borgnesingar hefðu ekki efni á að baða sig í lóninu 

Róbert segir verkefnið þó ekki síður hugsað fyrir íbúa bæjarins. Á hinn bóginn kveðst hann þeirrar trúar að til þess að búa til stemningu þurfi að fá ferðamenn, og til þess að fá ferðamenn þurfi að vera eitthvað aðdráttarafl.

Þess vegna hafi verið lagt upp með að reisa hótel á eyjunni auk þess að gera baðlón, sem sé ekki síður hugsað fyrir íbúa. 

„Ég er náttúrulega ekki sammála einhverjum hérna sem sagði að Borgnesingar hefðu ekki efni á því. Það finnst mér bara dónaskapur,“ segir Róbert og vísar til orða eins fundargests sem sagði Borgnesinga ekki hafa efni á að baða sig í lóninu. 

„Við lögðum upp með það að gera þetta þannig að þetta myndi vera fyrir alla. Fyrir íbúa og fyrir gesti. Það er fyrsta markmiðið.“ 

Skipulagið ekki alveg meitlað í stein

Nú tók fólk almennt vel í þær hugmyndir sem þið lögðuð fram en einhverjir voru með tillögur að breytingum á skipulaginu. Hversu fast mótað er skipulagið? 

„Það er ekkert þannig lagað fast mótað. Við erum búin að setja, að við teljum, þessar lykilstoðir á rétta staði, svona út frá skipulagi, síðan á eftir að taka það áfram. Við erum auðvitað að vinna með sveitarstjórninni og samstarfsaðilum og það er alltaf verið að hugsa hvort að það sé hægt að gera eitthvað öðruvísi. Þannig að þetta er ekkert alveg meitlað í stein.“  

Þannig að það er svigrúm fyrir einhverjar breytingartillögur? 

„Já, ég hugsa það.“ 

Íbúafundurinn var vel sóttur.
Íbúafundurinn var vel sóttur. mbl.is/Theódór Kristinn Þórðarson

Ekkert til fyrirstöðu þess að verkefnið geti gengið

Þá voru einhverjir fundargesta sem efuðustu um að umrædd hugmynd gæti orðið að veruleika. Róbert kveðst aftur á móti ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að verkefnið geti orðið að veruleika. 

Hann viðurkennir að verkefnið sé stórt og það þurfi að leysa ýmsa hluti, en hann segir það fjárhagslega burðugt og að Festir hafi nálgast verkefnið þannig að félagið telji það raunhæft. 

„Við byrjum náttúrulega bara með hvítt blað, svo byrjum við að þróa og svo máta. Getur þetta gengið? Getur þetta ekki gengið? Við teljum þetta geta gengið eins og staðan er í dag.“ 

Bjartsýnustu vonir, hvenær verður þetta tilbúið ef verkefnið nær fram að ganga? 

„2030.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert