Vinna að breytingum á styrkjakerfinu

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nei, það er vel að meta árangur og við báðum um það sjálf að skoða hvernig við getum gert kerfið betra og skilvirkara og þessar athugasemdir eru góðar og gegnar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is spurð hvort hún sé mótfallin breytingum á endurgreiðslukerfi vegna rannsókna og þróunar.

„Við erum að vinna að tillögum og lagabreytingum þess eðlis með fjármálaráðuneytinu.“

mbl.is greindi frá því í síðustu viku að eng­ar upp­lýs­ing­ar fást upp­gefn­ar um hverj­ir fá meiri­hluta þeirr­ar end­ur­greiðslu sem ríkið veit­ir vegna rann­sókna og þró­un­ar. Á síðustu sex árum hef­ur aðeins verið upp­lýst um þá sem þáðu end­ur­greiðslu­styrki upp á 17,2 millj­arða af þeim 37,4 millj­örðum sem veitt­ir hafa verið.

Bindur vonir við næsta haustþing

Liggur fyrir hvenær ráðist verður í þessar breytingar?

„Nú erum við að vinna að breyttri og betri framkvæmd í samvinnu með Rannís og Skattinn. Markmiðið er að geta strax byrjað að auka eftirlit og ég vonast til að geta kynnt þau áform við fyrsta tækifæri,“ segir Áslaug.

Hún segist vona að á haustþingi verði lagt fram frumvarp um breytingu á lögum þar sem endurgreiðsluúrræðin verða fest í sessi.

„En á sama tíma breytum við framkvæmdinni að einhverju leyti,“ segir Áslaug en að fjármálaráðherra legði frumvarpið fram.

Tekur undir ábendingar um gagnsæi

Hún bendir á að Ísland hafi átt frumkvæði að því að fá álit OECD áður en ákveðið yrði hvernig kerfið yrði til frambúðar.

„Í henni kemur fram að stuðningurinn hafi jákvæð áhrif á fyrirtæki til að vera á Íslandi og til að fjárfesta meira hér í rannsóknum og þróun en bendir líka á ýmislegt sem betur má fara,“ segir Áslaug.

„Ég hef tekið undir þær ábendingar bæði að tryggja aukið gagnsæi, betra eftirlit og ákveðnar breytingar sem ég hef lagt til eins og skilyrðið um að störfin þurfi að vera unnin hér á landi,“ segir hún.

Útflutningstekjur aukist um 151 milljarð

„Endurgreiðslur til rannsókna og þróunar er að grunni til hvati og fjárfesting til að fjölga stoðum íslensks efnahagslífs,“ segir Áslaug. „Það er ekki lengur deilt um að það sé þjóðhagslegur ábati af því.“

Áslaug segir að í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi fram að stuðningurinn endurspeglist í hraðri uppbyggingu verðmætasköpunar í hátæknigreinum.

„Þessir hvatar, sem endurgreiðsla vegna rannsókna og þróunar er, stuðla að vexti nýsköpunarfyrirtækja. Bæði í nýjum sem og innan hefðbundinna atvinnugreina,“ segir Áslaug.

Hún bendir á að störf í hugverkaiðnaði voru 13.222 talsins árið 2010 en tæplega 18 þúsund árið 2022.

„Útflutningstekjur af þessari grein hafa aukist á síðustu sjö árum um 151 milljarð,“ segir Áslaug. „Þessi árangur og breyting á hagkerfinu okkar skiptir svo miklu máli svo við vöxum úr því að vera sveiflukennt hagkerfi og fyrirtæki sjá hag sinn í að vaxa á Íslandi en ekki annars staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert