„Við erum með þetta til skoðunar út frá því sem segir í álitinu,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um álit Samkeppniseftirlitsins varðandi greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands við Intuens Segulómun ehf.
Samkeppniseftirlitið beindi tilmælum til heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga Íslands um að grípa yrði til aðgerða til að stuðla að bættri samkeppni á markaði fyrir myndgreiningar utan sjúkrahúsa.
Taldi eftirlitið engar málefnalegar ástæður hjá Sjúkratryggingum að semja ekki við Intuens um greiðsluþátttöku. Blaðamaður mbl.is ræddi við heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Getur þú brugðist við með því að beina því til Sjúkratrygginga Íslands að semja við Intuens?
„Það er eitthvað sem þarf að meta, hvað felst í þessu áliti. Það eru Sjúkratryggingar Íslands sem að semja“ svarar Willum.
Intuens býr yfir einu fullkomnasta segulómunartæki á Íslandi samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins. Markaðurinn sem um ræðir er myndgreiningar utan sjúkrahúsa en Willum segir það liggja fyrir að fara eigi í einhverskonar útboð á markaðnum.
„Það þarf að skoða það í samhengi við álitið eins og það er,“ bætir Willum við.