Bjarni: Gefur ekkert fyrir orð Sunnu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur að starfsmaður þingflokks VG hafi gengið mjög langt í skrifum sínum um stjórnarsamstarfið í liðinni viku og vísar þar í pistil Sunnu Valgerðardóttur.

Hann er spurður út í þessi skrif í nýjasta þætti Spursmála en í skrifum sínum spyrðir Sunna saman þeirri staðreynd að Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi formaður VG laut í lægra haldi gegn Höllu Tómasdóttur, í forsetakjöri um síðustu helgi, og þeim tíðindum sem bárust í nýjustu könnun Gallup að VG mælist einungis með 3,3% fylgi.

Orðaskiptin

Orðaskiptin vegna þessara skrifa má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig rituð upp hér að neðan:

Eftir að ljóst varð að Katrín Jakobsdóttir yrði ekki forseti þá birtist á vefmiðlum, og fésbók, pistill eftir Sunnu Valgerðardóttur, sem var þar til fyrir skemmstu pólitískur kommentator hjá Ríkissjónvarpinu en er núna orðin starfsmaður þingflokks VG. Þar fór hún mikinn og virðist tala fyrir því að nú sé mælirinn fullur í samskiptum og samstarfi ykkar flokkanna. Hún segir flokkinn standa fyrir félagslegt réttlæti, kvenfrelsi, frið og náttúruvernd. Eru þetta hugtök sem eru fjarskyld þeirri stefnu sem þú talar fyrir?

Er ekki með atkvæðisrétt

„Nei, ég myndi ekki skrifa upp á það að við töluðum ekki fyrir félagslegu réttlæti og friði svo dæmi séu tekin. En henni er frjálst að hafa sína skoðun, hún sækir ekki umboð til mín og ég þarf ekki að treysta á hennar stuðning í sjálfu sér, hún er hvorki með atkvæðisrétt né skuldbundin af neinu því sem um hefur verið samið milli flokkanna.“

Mjög langt gengið

En þetta er óvanalegt að starfsmaður þingflokks tali með jafn afgerandi hætti?

„Mjög óvanalegt, og mjög langt gengið. Ég tek undir það og ekki til þess gert að skapa góða stemningu í stjórnarliðinu.“

Hefur þú rætt þetta við Guðmund Inga um þessi skrif?

„Ekki sérstaklega. Mér finnst þau dæma sig dálítið sjálf inn í stjórnarsamstarfið.“

Hún segir hins vegar að VG hafi gert alltof margar málamiðlanir. Nefnir landsrétt, brottvísanir flóttamanna, Ásmundarsalsmálið, dómsmál, þyrluferð ráðherra, lögregluofbeldi, Samherja, bankasölu og svo mætti lengi telja. Er þetta stemningin á stjórnarheimilinu að menn eru komnir með langa, ja ekki óskalista, heldur tossalista yfir það sem menn hafa þurft að kyngja misgóðum hlutum?

Sunna Valgerðardóttir lét af störfum hjá RÚV í lok apríl …
Sunna Valgerðardóttir lét af störfum hjá RÚV í lok apríl síðastliðnum. Þar hafði hún stýrt umræðuþáttum og flutt fréttir af stjórnmálasviðinu, m.a. um stjórnmál innanlands.

Kostuleg upptalning

„Veistu það, mér finnst þetta dálítið kostuleg upptalning en ætli maður verði ekki bara að segja um svona lagað og svona stöðu almennt að það kann almennt ekki góðri lukku að stýra að finna orsakir þess sem maður er að fást við í lífinu eða stjórnmálum eða annarsstaðar fyrir utan sjálfan sig. Og nú hefur liðið dágóður tími síðan ég tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum og við höfum farið í gegnum allskonar tíma. Og við höfum að jafnaði reynt að horfa inn á við. Og við höfum þurft að gera upp allskonar mál og finna leiðir til að móta stefnu sem er betur í takti við fólkið í landinu en ég man aldrei eftir því að við værum ekki að ná nægilega miklum árangri með því að benda á Sigmund Davíð eða Sigurð Inga eða Katrínu Jakobsdóttur eða einhvern annan samstarfsmann og segja að það sé þeim að kenna að mér gangi ekki nógu vel. Meira hef ég eiginlega ekki um þetta að segja.“

Viðtalið við Bjarna Benediktsson má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert