Skipverji um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq var í morgun handtekinn vegna gruns um kynferðisbrots.
Ríkisútvarpið kveðst hafa heimildir fyrir þessu en skipið komst í fréttirnar árið 2017 þegar skipverji um borð í Polar Nanoq, Thomas Møller Olsen, myrti Birnu Brjánsdóttur.
Fram kemur í umfjöllun ríkismiðilsins að skipverjinn sé grunaður um að hafa tekið konu um borð í skipið í nótt og brotið á henni kynferðislega.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, staðfestir við mbl.is að lögreglan sé með mál til rannsóknar vegna gruns um kynferðisbrot en vildi ekki tjá sig um það hvort að það tengdist skipverja á Polar Nanoq.