Hraunið nær Grindavíkurvegi

Á ellefta tímanum í dag náði hraunið Grindavíkurvegi eins og …
Á ellefta tímanum í dag náði hraunið Grindavíkurvegi eins og sést hér. Ljósmynd/Almannavarnir

Hraun hefur náð Grindavíkurvegi rétt norðan við varnargarðinn við Svartsengi. Búið er að fylla í skarðið sem var í varnargarðinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Greint var frá því í morgun að hraun færi að renna yfir Grindavíkurveg og að búið væri að loka Bláa lóninu. 

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir að fyllt hafi verið í skarðið í varnargarðinum í morgun þegar það lá fyrir að hraun myndi að öllum líkindum renna yfir Grindavíkurveg.

„Þetta var eitthvað sem búist er við að geti gerst,“ segir Hjördís.

Úr vefmyndavél Veðurstofu Íslands.
Úr vefmyndavél Veðurstofu Íslands. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Slökkviliðið klárt byrji gróðureldar

Spurð hvort almannavarnir séu með sérstakt viðbragð vegna þessa segir Hjördís fulltrúa vera á svæðinu til þess að fylgjast með.

„Við erum að aðstoða aðgerðastjórn sem hefur yfirsýn yfir þetta,“ segir Hjördís.

Hún segir að í þessu tilfelli sé hætta á gróðureldum meiri.

„Núna er slökkviliðið á staðnum klárt í að slökkva til þess að vera fyrirbyggjandi,“ segir Hjördís. Það sé gert til að koma í veg fyrir gróðurelda. Hún bendir á að gróðureldar séu ekki nýir af nálinni í þessum atburðum sem hafa verið á Reykjanesskaga.

Uppfært 11:50:

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að hrauntjörn brast í morgun og í kjölfarið streymdi hraun hratt í áttina að veginum. Þá segir að þetta sé í þriðja sinn sem hraun rennur yfir veginn á þessum slóðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert