Hraunið um 800 metrum frá heitavatnslögnum

Á ellefta tímanum í dag náði hraunið Grindavíkurvegi eins og …
Á ellefta tímanum í dag náði hraunið Grindavíkurvegi eins og sést hér. Ljósmynd/Almannavarnir

Hraunbreiðan frá eldgosinu við Sundhnúkagíga er nú 800 metrum frá heitavatnslögnum og færist nær.

Gosvirkni heldur áfram í einum gíg við Sundhnúkagíga og í nótt jókst hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell og í átt að Grindarvíkurvegi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Í morgun var farið í að loka skarðinu í varnargarðinum við Grindarvíkurveg og náði hrauntungan veginum rétt norðan við varnargarðinn á ellefta tímanum í dag.

Þetta er þriðja sinn sem Grindavíkurvegur fer undir hraun síðan eldvirkni hófst við Sundhnúk. 

Hraun hefur einnig leitað niður með varnargarðinum og er það mjög þykkt við garðinn og hrynur því yfir garðinn á kafla. 

Hægðist á hraunflæðinu eftir hádegi

Eftir hádegi hóf að draga úr hraða hraunsins og hefur framendi hraunsins náð í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist nær í átinna að þeim.

Veðurstofan segir enn fremur að áætla megi að áhlaupinu sé lokið að sinni en búast megi við því að það mjatlist aðeins áfram.

Þá verður fylgst með aðstæðum næstu daga og ekki er hægt að útiloka að annað áhlaup muni eiga sér stað á næstu dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert