HS Orka fylgist vel með gangi hraunflæðisins við eldgosið við Sundhnúkagígaröðina. Hraun rann í þriðja sinn yfir Grindavíkurveg norðan varnargarðanna við Svartsengi fyrr í dag þegar hrauntjörn brast við Sýlingarfell.
„Það er ekkert sem er að ógna okkar starfsemi í augnablikinu, við fylgjumst með gangi mála og vinnum náið með almannavörnum ef grípa þarf til frekari varna á orkuverinu,“ segir Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku í samtali við mbl.is.
Gosvirkni heldur áfram í einum gíg við Sundhnúkagíga og í nótt jókst hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell og í átt að Grindarvíkurvegi.
Eftir hádegi hóf að draga úr hraða hraunsins og hefur framendi hraunsins náð í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist nær í átinna að þeim.
Veðurstofa áætlar að áhlaupinu sé lokið að sinni en búast megi við því að það mjatlist aðeins áfram.