„Þetta mun enda yfir veginum sennilega“

Rennsli hraunsins jókst verulega í morgun að sögn náttúruvársérfræðings hjá …
Rennsli hraunsins jókst verulega í morgun að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Hörður Kristleifsson

„Þetta kemur ekki á óvart, við höfum verið að fylgjast með þessu í nokkra daga,“ segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofa Íslands, í samtali við mbl.is.

Greint hefur verið frá því að hraun renni í áttina að Grindavíkurvegi.

„Það kom bara aukið rennsli í hraunið í morgun og aukinn hraði. Það er alveg búið að fylgjast með þessu síðustu daga en það er bara komið að þessu,“ segir hún.

Unnið er að því að loka skarðinu á varnargarði sem snýr að Bláa lóninu.

Viðbragðsaðilar á svæðinu

Aðspurð segir Minney að hugsanlega gæti hraunið runnið inn fyrir varnargarðana ef ekki yrði gripið til þess ráðs að fylla í skarðið.

„Þetta mun enda yfir veginum sennilega,“ segir Minney en hvort það sé eftir klukkustund eða nokkra daga sé erfitt að segja.

„Það hefur dregið aðeins úr hraðanum frá því í morgun. Það kom skot í þrjá til fjóra tíma og svo hefur dregið úr því,“ segir Minney.

Hún tekur fram að viðbragðsaðilar séu á staðnum sem fylgjast með framvindu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert