Tímasetning dóms og sölu Noona óheppileg

Jón Hilmar Karlsson, framkvæmdastjóri SalesCloud, og Kjartan Þórisson, framkvæmdastjóri Noona.
Jón Hilmar Karlsson, framkvæmdastjóri SalesCloud, og Kjartan Þórisson, framkvæmdastjóri Noona. Ljósmynd/Aðsend

„Nei það er bara óheppileg tilviljun,“ segir Kjartan Þórisson, framkvæmdastjóri Noona labs ehf., spurður hvort tilefni sölu Noona Iceland ehf. til Símans sé vegna nýuppkveðins dóms Landsréttar í máli Jóns Hilmars Karlssonar.

„Þetta mál er búið að vera í gangi í þó nokkurn tíma og ég veit ekki hvort því verði áfrýjað,“ segir Kjartan.

Jón Hilmar er einn af eigendum Noona og var gert að greiða þrota­búi Karls Wernerssonar 2.652.753.000 krón­ur ásamt drátt­ar­vöxt­um frá 19. janú­ar 2019 til greiðslu­dags. Hafði Karl afsalað félaginu Toska ehf. til Jóns en Landsréttur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að rifta sölunni. Karl og Jón eru feðgar.

„Söluandvirðið er ekki að fara til hluthafa heldur beint aftur í reksturinn, vöruþróun og sókn á erlendum markaði,“ segir Kjartan.

Aðspurður segir hann að ekki sé verið að reyna koma Noona labs undan þrotabúinu.

Óbilandi trú á framtíð Noona og SalesCloud

„Við erum einungis að selja innlendan rekstur okkar til Símans. Þetta er ekki „exit“, við höfum óbilandi trú á framtíð Noona og SalesCloud,“ segir Kjartan. Nýverið keypti Noona Salescloud sem er í hugbúnaðargeiranum.

„Eins og öll sprotafyrirtæki þurfum við að fjármagna okkur og þetta er ein leið til þess. Þetta kemur með fjármagn inn í Noona labs sem við getum nýtt í áframhaldandi vöruþróun og sókn á erlenda markaði,“ segir Kjartan en Noona Iceland ehf. er nýtt félag sem heldur utan um íslensku viðskiptasamböndin sem Síminn var að kaupa.

„Við trúum því að þeir geti þjónustað viðskiptavini okkar enn þá betur og bætt þjónustuna,“ segir Kjartan. Það sé ekki mikið að breytast þrátt fyrir eignarhaldsbreytingar.

„Þetta verður sama teymið í vöruþróun, þjónustu og sölu,“ segir Kjartan.

Aðspurður segist Kjartan ekki geta gefið upp hvert kaupverðið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert