Á nýrri 360 gráða yfirlitsmynd frá Herði Kristleifssyni ljósmyndara sést umfang hraunbreiðunnar frá eldgosinu við Sundhnúkagíga skýrt og greinilega.
Hraunbreiðan er nú aðeins 800 metrum frá Njarðvíkuræðinni og færist hægt og rólega nær.
Flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 8,6 ferkílómetrar og rúmmál um 36 milljón rúmmetrar.
Hin ýmsu örnefni í grennd við gosið hafa verið merkt inn á myndina, sem má skoða gagnvirkt hér að neðan.
Tíu dagar eru síðan að eldgosið hófst og frá því 4. júní hefur aðeins einn gígur verið virkur.
Hraun frá honum rennur að aðallega til norðvesturs í átt að Sýlingarfelli þar sem hraunbreiðan þykknar, en þaðan eru virkir hraunstraumar norður fyrir Sýlingarfell.
Hraun rennur nú yfir Grindavíkurveg, norðan varnargarðanna við Svartsengi.