Bílslys við Bifröst: Tveir fluttir með þyrlu

Þyrla landhelgisgæslunnar er lent á Landsspítalanum.
Þyrla landhelgisgæslunnar er lent á Landsspítalanum. Ljósmynd/Jóhann Kristjánsson

Tveir slösuðust í alvarlegu umferðarslysi á Hringvegi 1 norðan við Hraunsnef í kvöld. Hafa þeir verið fluttir með þyrlu á Fossvogsspítala.

Bjarni Þorsteinsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Borgarbyggðar, segir í samtali við mbl.is að fólksbíll og jeppi hafi rekist saman á Norðurlandsvegi nálægt Hvassafelli.

Alls voru þrír í bílunum. Tveir voru fluttir á Fossvogsspítala en ekki þurfti að flytja þann þriðja á heilbrigðisstofnun, að sögn Bjarna. Hann telur bílana enn ökufæra. Bjarni segist ekkert vita um ástand þeirra slösuðu.

Slysið varð á Hringvegi 1 nálægt Hraunsnefi, sem er merkt …
Slysið varð á Hringvegi 1 nálægt Hraunsnefi, sem er merkt á kortinu hér að ofan. map.is

Lentir á Fossvogsspítala

Búið er að loka Hringvegi 1 norðan við Hraunsnef vegna slyssins og verður hann lokaður á meðan viðbragðsaðilar eru á vettvangi. Vegagerðin bendir á hjáleið um Norðurárdalsveg.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir við mbl.is að þyrlan hafi verið kölluð út að beiðni lögreglunnar á Vesturlandi.

Þyrlusveitin hafi mætt á vettvang um 21:50 og lent á Fossvogsspítala um hálftíma síðar.

Hann segir að slysið hafi orðið austur af Bifröst en kveðst ekki vita meira um áreksturinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert