Gert að svara um tengsl við Hamas

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Synjun Útlendingastofnunar á beiðni um afhendingu allra gagna sem sýna hugsanleg tengsl fólks við Hamas-samtökin, sem fengið hefur leyfi til komu til Íslands á grundvelli fjölskyldusameiningar, hefur verið hnekkt með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem kveðinn var upp í vikunni.

Spurt um hvort skilyrði reglugerðar hefðu verið uppfyllt

Það var Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður sem óskaði eftir aðgangi að téðum gögnum í vörslu Útlendingastofnunar, en einnig óskaði hann eftir öllum gögnum sem sýndu að lagt hefði verið mat á að þeir sem koma hingað til lands frá Gasasvæðinu uppfylltu skilyrði reglugerðar um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi og ákvæða um heimild til að koma inn á Schengen-svæðið.

Spurður um tilefni upplýsingabeiðninnar sagði Einar að samkvæmt upplýsingum sínum væri svo að í hópi fólks sem hingað til lands hefur komið á grundvelli fjölskyldusameiningar væru menn með tengsl við Hamas-samtökin og kæmi það fram í gögnum Útlendingastofnunar. Hamas-samtökin eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök, svo sem kunnugt er.

„Ég vildi ganga úr skugga um hvort þetta gæti verið rétt,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið.

„Í stað þess að taka af öll tvímæli og að stofnunin segði að hún hefði engin slík gögn sem væri hið eðlilega svar, þá synjaði hún mér um þessar upplýsingar og reyndi að skjóta sér undan því að sýna umbeðin gögn. Þetta gerði Útlendingastofnun á veikum grunni, eins og úrskurður úrskurðarnefndarinnar ber vott um,“ segir Einar.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kemur fram að Útlendingastofnun hafi synjað beiðninni um áðurnefnd gögn á þeim grundvelli að umfangið væri óljóst, sem og til hvaða tímabils hún næði. Þá væri ekki unnt að kalla fram upplýsingarnar í formi ópersónugreinanlegrar tölfræði, en í gögnunum væru persónuupplýsingar um hvern einstakling, bæði almennar og viðkvæmar.

Þar segir einnig að ekki verði séð af málsgögnum að Útlendingastofnun hafi gert tilraun til að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða mál í hennar vörslu. Þá takmarki þagnarskylda starfsmanna stofnunarinnar ekki rétt til aðgangs að gögnum skv. upplýsingalögum og í lögunum sé ekki að finna ákvæði sem heimili Útlendingastofnun að takmarka aðgang að málsgögnum stofnunarinnar í heild, heldur beri að meta hverju sinni hvort þau gögn sem óskað er eftir séu háð aðgangstakmörkunum í heild eða að hluta.

Í úrskurðarorðum nefndarinnar segir að málinu sé vísað til Útlendingastofnunar „til nýrrar meðferðar og afgreiðslu“ eins og komist er að orði.

Einar segir að nú verði Útlendingastofnun að fara að lögum og svara, en það verði hún að gera innan sjö daga, en beri að skýra ástæður tafanna ella.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert