Hraunið gæti aftur farið á skrið

Hraun rann yfir Grindavíkurveg í gær.
Hraun rann yfir Grindavíkurveg í gær. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Jöfn og hæg hreyfing er á straumnum í gegn um hrauntjörnina sem brast í gær við eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni. Hraunið gæti aftur farið öflugt á skrið eins og í gær en líklegast ekki á næstu dögum.

Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Virk hrauntröð liggur frá gígnum í gegnum hrauntjörnina og niður tungubroddinn,“ segir Minney.

Ekki eins mikið streymi í hrauntjörnina

„Það er ennþá verið að fæða í hrauntjörnina, það er ekki eins mikið streymi í hana af því að það er ennþá streymi úr henni og áfram í hrauntunguna, sem sést ekki á yfirborði,“ segir Minney. 

Uppsöfnun hraunsins í hrauntjörninni er því mun minni en áður en það braust, af því að það er ennþá að tæmast úr henni.

„Hver framtíðin verður er mjög erfitt að segja,“ svarar Minney spurð hvort líkur séu á því að hrauntjörnin bresti aftur.

„Þannig að ef það hættir að fæða hrauntunguna og það fer að safnast meira í hrauntjörnina þá má alveg búast við því að það geti orðið annað skrið og við erum viðbúin öllu,“ bætir hún við.

Spurð segir hún virkni í gígnum sjálfum frekar stöðuga og svipaða síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert