Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú meint kynferðisbrot í Hafnarfirði á laugardag, en tilkynning um málið barst lögreglu á áttunda tímanum í gærmorgun.
Þrír voru handteknir í þágu rannsóknarinnar, en þeim var síðan sleppt að loknum yfirheyrslum.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi kynferðisbrotamál sem sagt er tengjast grænlenska togaranum Polar Nanoq. Eins og mbl.is hefur þegar greint frá hefur lögreglan ekki viljað staðfesta tengsl skipsins við málið.
Polar Nanoq lagði úr höfn til Grænlands úr Hafnarfirði í gærkvöldi samkvæmt sjóumferðar-vefsíðunni Marine Traffic.
„Málið var strax tekið mjög alvarlega og voru viðbrögð lögreglu eftir því, en í upphafi voru málsatvik um margt óljós,“ segir í tilkynningunni.
Er þar einnig minnst á að ekki sé venjan að embættið tjái sig um rannsóknir einstakra kynferðisbrota á frumstigi rannsóknar og eigi það sömuleiðis við í þessu máli.