100.000 kr. sekt fyrir rangar fullyrðingar

Neytendastofa lagði Reykjavík Marketing 100.000 kr. stjórnvaldssekt.
Neytendastofa lagði Reykjavík Marketing 100.000 kr. stjórnvaldssekt. Morgunblaðið/Golli

Neytendastofa hefur lagt 100.000 kr. stjórnvaldssekt á Reykjavík Marketing, rekstraraðila vefsíðunnar healthi.is, fyrir rangar fullyrðingar um virkni svokallaðra Lifewave-vara.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu. 

Fram kemur, að á vefsíðunni healthi.is hafi því m.a. verið haldið fram að Lifewave-vörur minnki verki og bólgur, stuðli að betri svefni, minnki öldrunareinkenni, styrki ónæmiskerfið auk þess að minnka streitu og streitumyndun.  

Plástur sem yngir notendur

Svo dæmi sé tekið var fullyrt um hinn svokallaða X39-plástur að notkun hans myndi leiða til endurstillingar 3.000-4.000 gena í yngra og heilbrigðara ástand. Innan árs myndu notendur plástursins lækka æðaaldur sinn að meðaltali um átta ár og að plásturinn hægði því ekki á öldrun, heldur beinlínis yngdi notendur. 

Fór Neytendastofa fram á sannanir sautján slíkra fullyrðinga Lifewave-vara í auglýsingum. Í svörum Reykjavík Marketing við erindi stofnunarinnar var vísað til fjölda rannsókna að baki fullyrðingunum. Hins vegar var hvergi tilgreint með skýrum hætti hvar sönnun fullyrðinganna væri að finna í umræddum gögnum þrátt fyrir beiðni stofnunarinnar þar um. 

Vefsíðunni lokað á meðan málsmeðferð stóð

Greint er frá því að vefsíðunni healthi.is hafi verið lokað á meðan meðferð málsins stóð á en að sú ákvörðun ein og sér hafi ekki leitt til þess að málsmeðferð yrði sjálfkrafa lokið.

Taldi Neytendastofa félagið veita rangar upplýsingar um helstu einkenni varanna og að Reykjavík Marketing héldi því þannig ranglega fram að Lifewave vörur gætu læknað sjúkleika eða röskun á líffærastarfsemi.

Mat stofnunin því hæfilegt að sekta félagið um 100.000 kr. vegna brota þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert