ASÍ gerir athugasemdir

ASÍ segir að gera þurfi breytingar á raforkulögum til að …
ASÍ segir að gera þurfi breytingar á raforkulögum til að tryggja orkuöryggi almennings. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Alþýðusamband Íslands vill að gerðar verði breytingar á raforkulögum til að tryggja orkuöryggi almennings og smærri fyrirtækja og verja almenning fyrir hækkunum á raforkuverði. Frumvarp ríkisstjórnarinnar nái ekki að tryggja orkuöryggi heimilanna.

ASÍ hefur skilað af sér umsögn um frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum, að því er segir í tilkynningu frá sambandinu.

Þar segir að ASÍ gagnrýni harðlega að umsagnarbeiðni hafi ekki verið send sambandinu í ljósi þess að efni frumvarpsins varði breytingar á raforkumarkaði. Það hafi áhrif á orkuöryggi og orkuverð og feli þar af leiðandi í sér mikla hagsmuni fyrir félagsmenn ASÍ og þjóðina alla.

Til marks um að stjórnvöldum hafi mistekist

Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang komi til skömmtunar, meðal annars vegna framboðsskorts.

Sambandið tekur fram að sú staðreynd að skömmtun raforku sé til umræðu sé til marks um að stjórnvöldum hafi mistekist að standa vörð um orkuinnviði og þar með hagsmuni almennings.

ASÍ segir að íslenskur raforkumarkaður hafi hingað til verið með þeim hætti að almenningi bjóðist hagstætt verð á raforku vegna þess að nægt framboð er til staðar.

Á þessu gæti orðið breyting þar sem fleiri sækist nú eftir endurnýjanlegri orku. Frumvarpið sé viðbragð við þessum breyttu aðstæðum á markaði, sem stjórnvöld hefðu átt að sjá fyrir og átt að vera búin að gera eitthvað í.

Stórnotendur geti selt raforkuna

ASÍ segir að þar að auki hafi meirihluti atvinnuveganefndar lagt fram breytingatillögu  á frumvarpinu sem geri stórnotendum að markaðsaðilum raforku „án nokkurs samráðs og án þess að framkvæma mat á mögulegum áhrifum,“ að því er segir í tilkyninngu sambandsins.

Þar segir jafnframt að ef breytingatillagan nái fram að ganga virðist ekkert koma í veg fyrir að stórnotendur raforku, þ.á.m. álver, geri hlé á starfsemi sinni og framleiðslu og ákveði að selja raforkuna frekar en að nýta hana, ef það reynist þeim hagstæðara.

Aðstæður sem þessar geti myndast ef eftirspurn eftir raforku sé mikil, framboð af raforku er lítið og verð á áli lækkar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert