Fimm íslenskar konur sem kalla sig Bárurnar fóru til Svalbarða til þess að taka smá sundsprett í Norður-Íshafinu við strönd bæjarins Longyearbyen. Þetta gerðu þær í tilefni þess að tvö ár eru liðin frá því að hópurinn synti yfir Ermarsundið.
Elsa Valsdóttir, liðsstjóri hópsins, lýsir Svalbarða sem æðislegum stað. Segir hún tilfinninguna svipaða og vera í litlum bæ á Austur- eða Vesturlandi, hér heima á Íslandi.
Að sögn Elsu eru matvörubúðirnar á Svalbarða fullar af ferskum fisk og ávöxtum sem líta betur út en vörurnar í Reykjavík.
Mikið er um dýralíf á Svalbarða meðal annars villt hreindýr sem labba um og bíta gras um allan Longyearbyen. Rétt fyrir utan bæinn er svæði þar sem ísbirnir halda til en að sögn Elsu eru heimamenn ekki mikið að kippa sér upp við það.
„Fólkið í kring eru alveg ótrúlega rólegt og er ekki með neinar áhyggjur af ísbjörnunum,” segir Elsa.
Að sögn Elsu voru nokkrar úr hópnum sem tóku morgunskokk um bæinn. Þurftu þær að gæta sín enda mikil hætta ef farið er út fyrir ákveðið svæði.
Á föstudaginn stungu Bárurnar sér til sunds og fengu frábært veður. Minnti veðrið á Tenerife.
Að sögn Elsu var sundið virkilega skemmtilegt. Þá skemmdi ekki fyrir að komast í lúxus saunu eftir ískaldan sundsprettinn. Bárurnar stoppuðu þó ekki lengi heldur fóru þær aftur út í hafið eftir að hafa náð smá yl í líkamann.
Hvað stóð upp úr
„Sundið var náttúrulega alveg hápunkturinn en ég verð að viðurkenna það að rostungaferðin var alveg liggur við á pari við sundið, það var ótrúlega gaman að sjá þá," segir Elsa.
„Þegar við vorum að skipuleggja ferðina þá hugsaði maður að þetta væri bara eitthvað sem maður gerir bara einu sinni á ævinni en eftir að hafa komið þarna þá værir maður alveg til í að fara aftur,” segir Elsa.