Fá daglega ábendingar frá fólki

Maður var handtekinn á föstudaginn en var látinn laus eftir …
Maður var handtekinn á föstudaginn en var látinn laus eftir yfirheyrslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki tekist að hafa uppi á manninum eða mönnunum sem hafa ógnað börnum við nokkra skóla í Hafnarfirði á undanförnum vikum.

Fjögur slík tilvik hafa komið upp á undanförnum vikum, tvö við Víðistaðaskóla, eitt við Engidalsskóla og eitt nærri Lækjarskóla.

„Okkur hafa ekki borist neinar tilkynningar um tilvik af þessu tagi í næstum þrjár vikur en við erum enn með þessi mál sem hafa komið upp til rannsóknar,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Maður var handtekinn á föstudaginn en var látinn laus eftir yfirheyrslu. Umræddur maður veittist að börnum við verslunarmiðstöðina Fjörð. Í tilkynningu frá lögreglunni á föstudag kom fram að maðurinn sé ekki talinn tengjast áðurnefndum atvikum í bænum.

Skúli segir að lögreglunni sé daglega að berast ábendingar frá fólki sem fylgt hafi verið eftir en þær hafi ekki leitt til þess að upplýsa málið.

„Fólk hefur verið duglegt að koma til okkar ábendingum um grunsamlegar mannaferðir og við höfum kallað eftir því,“ segir Skúli.

Eltur af manni með lambhúshettu

Í Facebook-hópnum, Íbúar á Álftanesi, greindi einn einstaklingur frá því um helgina að sjö ára sonur hans hefði komið grátandi heim og hefði verið hræddur því maður með lambhúshettu hefði hlaupið á eftir honum við leikskólann á Álftanesi.

Skúli segir að lögreglunni hafi borist tilkynning um atvikið og lögreglumenn hafi verið sendir á staðinn en þeir hafi ekki orðið varir við manninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert