Enn er unnið að því að rýma hjólhýsasvæðið á Laugarvatni og farga því því rusli sem skilið var eftir á svæðinu þegar síðustu leigutakarnir yfirgáfu það í september árið 2022.
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, bindur vonir við að búið verði að rýma svæðið í október.
„Þetta er heljarinnar verkefni, það var mikið skilið eftir,“ segir Ásta í samtali við mbl.is.
Ákvörðun þess efnis að loka tjaldsvæðinu á Laugarvatni var tekin af sveitastjórn Bláskógabyggðar í september 2020. Var það í kjölfar þess að eldur kviknaði í hjólhýsabyggðinni ári áður og ljóst þótti að öryggi fólks á svæðinu væri verulega ábótavant ef upp kæmi eldur.
Fólst ákvörðunin í því að endurnýja ekki samninga við leigutaka og þar með voru engir samningar í gildi að tveimur árum liðnum eða í september 2022. Leigutakar fengu þó frest til að rýma svæðið þar til í maí í fyrra, en mbl.is greindi frá því fyrir ári síðan að rýming hefði gengið erfiðlega vegna mikilla rigninga á svæðinu.
Aðspurð segir Ásta skurk hafa verið tekinn í hreinsun á svæðinu í fyrra haust en hreinsun hafi síðan verið sjálfhætt um leið og tók að frysta og snjóa.
„En það er verið að fara í þetta núna bara um næstu helgi,“ segi Ásta og útskýrir fyrir blaðamanni sveitarfélagið hafi samið við ungmennafélagið á Laugarvatni um að hreinsa timbur af svæðinu.
„Þeir ætla að taka nokkra gáma af timbri, en svo eru bara stærri hlutir sem þarf að koma öðruvísi í burtu.“
Eins og fyrr segir bindur Ásta vonir við að verkefninu verði lokið í október, en þar sem landið er í eigu Bláskógabyggðar lendir kostnaður og utanumhald verkefnisins á sveitarfélaginu. Spurð hvort verkefnið hafi verið stærra en sveitarfélagið gerði ráð fyrir svarar hún:
„Það auðvitað áttu allir að taka sitt með sér samkvæmt samningum, en það var mikill misbrestur á því og ótrúlegustu hlutir sem finnast inni í runnum.“
Eru einhverjar afleiðingar af því fyrir fólk?
„Nei það er eiginlega útilokað að elta það uppi.“
Þegar mbl.is ræddi við Ástu fyrir ári síðan var hún spurð hvort búið væri að ákvörðun um framtíð svæðisins. Svaraði hún því þá til að henni þætti ólíklegt að svæðið yrði tekið undir byggð, en sagði ákvörðunina líklega tekna í samráði við íbúa að sumrinu loknu.
Í dag segir hún enn ekki búið að taka ákvörðun um framtíð svæðisins. „Það svo sem bíður seinni tíma.“