Líklega boðað of seint til samtalsins

Samtal um Sáttmála framtíðarinnar í Mannréttindahúsinu síðdegis á fimmtudag.
Samtal um Sáttmála framtíðarinnar í Mannréttindahúsinu síðdegis á fimmtudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Boðað var til samtals um Sáttmála framtíðarinnar í Mannréttindahúsinu síðdegis á fimmtudag. 

Samtalið sátu Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í samstarfi við utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið, Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ, Höfða friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Landssamband ungmennafélaga. 

Verið er að undirbúa leiðtogafund um framtíðina sem haldinn verður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í haust, segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Á leiðtogafundinum verður skrifað undir nýjan alþjóðlegan sáttmála sem hefur verið í undirbúningi síðastliðna mánuði.

Sáttmálinn á að hraða aðgerðum til að ná heimsmarkmiðum í friðar- og öryggismálum, sjálfbærni og fjármögnun þróunar, málefnum ungs fólks og komandi kynslóða, nýsköpun og tækni og alþjóðlegum stjórnarháttum. Markmiðin voru upphaflega sett fyrir árið 2030.

Vala kveðst vonast til að þær tillögur sem komu fram …
Vala kveðst vonast til að þær tillögur sem komu fram á fimmtudag og sendar sem yfirlýsing til stjórnvalda verði teknar með inn á leiðtogafundinn í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk stjórnvöld sein að taka við sér

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sendi fyrir nokkrum mánuðum beiðni um að öll aðildarríkin boðuðu til þessa samtals. 

Samtalið sem átti sér stað á fimmtudag var aðallega fræðsla.

„Á þessum tímapunkti er almenningur á Íslandi ekki að koma með neinar tillögur inn í sáttmálann eins og hann stendur núna,“ segir Vala, sem bendir enn fremur á að í ferlinu hafi íslensk stjórnvöld líklega boðað of seint til samtalsins.

Nú sé þegar búið að taka ákvarðanir um helstu málefni og því muni samtalið í gær ekki hafa neitt að segja um lokaútkomuna.

Tillögur voru settar fram á fundinum og gerð yfirlýsing sem …
Tillögur voru settar fram á fundinum og gerð yfirlýsing sem var send á stjórnvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirlýsing send á stjórnvöld

Vala segir að stór ráðstefna hafi verið haldin í Naíróbí í Kenía fyrir nokkrum vikum sem liður í undirbúningnum. Því miður hafi hvorki samtök né fulltrúar frá Íslandi verið viðstödd að sögn Völu.

Þar sem verið er að semja fyrir hönd allra þessara ríkja hefði verið eðlilegt að Ísland tæki þátt í ráðstefnunni.

Vala kveðst þó vonast til að þær tillögur sem komu fram á fimmtudag og sendar sem yfirlýsing til stjórnvalda verði teknar með inn á leiðtogafundinn í haust. Enda hafi Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ávallt átt í góðu samstarfi við utanríkisráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert