„Lítur út fyrir að að landris sé hafið að nýju“

Tólf dagar eru liðnir frá því að eldgosið hófst við …
Tólf dagar eru liðnir frá því að eldgosið hófst við Sundhnúkagíga. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að merki séu um að landris sé hafið undir Svartsengi að nýju.

Tólf dagar eru liðnir frá því eldgosið við Sundhnúkagíga hófst; það fimmta í röðinni á þessu svæði frá því í desember. Fyrstu dagana eftir að eldgosið hófst mældist landsig á Svartsengissvæðinu en nú eru vísbendingar um að land sé farið að rísa á nýjan leik.

Hrauntungan lítið hreyfst frá því í gær

„Það lítur út fyrir að að landris sé hafið að nýju en það kemur betur í ljós á morgun þegar við lesum úr gögnunum,“ segir Benedikt Gunnar í samtali við mbl.is.

Benedikt segir að á fyrstu dögum gossins hafi mælst landsig. Frá því um helgina hafi landið verið orðið flatt en nú sé líklegt að land sé farið að rísa. Hann segir að virknin í eina gígnum sem sé virkur hafi verið nokkuð svipuð síðustu daga.

Aðfaranótt laugardags tók að auka á hraunstreymið niður fyrir Sýlingarfell til vesturs og það fór svo að Grindavíkurvegur fór aftur undir hraun og í þriðja sinn frá því eldvirkni hófst við Sundhnúk. Áhlaupinu lauk síðdegis á laugardaginn og hefur hrauntungan lítið hreyfst frá því í gær.

Benedikt segir að þetta gerist. Það safnist hraun í hrauntjarnir og þegar þær brotni þá renni það fram eins og gerðist um helgina. Hann segir að endurtekning geti orðið á þessu.

Benedikt segir enga leið að spá fyrir um hversu lengi gosið haldi áfram að malla. „Þetta getur haldið áfram svona svo vikum skiptir.“

Líklegast að þessir atburðir haldi áfram

Spurður hvort hann sjái fyrir sér endalok á eldsumbrotunum þegar líður á sumarið segir Benedikt:

„Ef við höldum áfram að sjá landris á sambærilegum hraða við Svartsengi þá er ég ansi hræddur um að þetta endurtaki sig. Ég held að það sé langlíklegast að þessir atburðir haldi áfram en það er erfitt að spá fyrir um slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert