Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) um stöðu og fjölda mála hjá henni. Málsmeðferðartími nefndarinnar hefur ekki verið lengri í átta ár.
Í bréfi sem umboðsmaður sendi úrskurðarnefndinni 5. júní kemur fram að honum hafi borist kvartanir og ábendingar vegna afgreiðslutíma nefndarinnar við úrlausn einstakra mála, auk þess sem borið hefur á umfjöllun um málshraða nefndarinnar á opinberum vettvangi.
Bendir umboðsmaður á að samkvæmt skýrslu frá forsætisráðherra um störf nefndarinnar á síðasta ári hafi nefndin kveðið upp 46 úrskurði í fyrra sem er töluvert minna en undanfarin ár. Nefndin hafi t.a.m. kveðið upp 67 úrskurði árið 2022, 91 úrskurði árið 2021 og 102 úrskurði árið 2020.
Nefnir umboðsmaður einnig að málsmeðferðartími nefndarinnar hafi á síðasta ári verið að meðaltali 241 dagur frá kæru til úrskurðar. Hafi hann lengst nokkuð á fyrri árum og ekki verið lengri síðan árið 2016.
Umboðsmaður óskar eftir frá nefndinni að fá upplýsingar um fjölda mála sem hafa borist nefndinni á þessu ári, hve mörg hafa verið afgreidd sem og hvenær þau bárust. Einnig er beðið um heildarfjölda ólokinna mála og hvenær þau bárust. Þá er óskað skýringa á því að úrskurðum hafi fækkað og málsmeðferðartími nefndarinnar lengst á undanförnum árum.
Beðið er nefndina um svör fyrir 27. júní.