„Í rauninni er ekki alveg komið á hreint hvaða mál það eru sem við náum ekki að ljúka enn sem komið er. Við stefnum á að klára ansi mörg mál á síðustu dögunum,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Í samtali við mbl.is segir Ingibjörg að ansi mörg mál séu nú á þingi sem skipti þjóðina miklu máli og áhersla sé lögð á að klára.
„Það eru mörg mál sem eru í rauninni bara þvert á flokka sem okkur finnst mikilvægt að klára og þá erum við að horfa á mál eins og heilbrigðismálin og orkumálin. Við erum svo að klára útlendingalögin líka.“
Segir Ingibjörg mikla tæknilega vinnu eiga sér stað á þingi þessa dagana.
„Við erum á lokametrunum núna að ná að greina stöðuna á hvað er raunhæft að gera og hvað ekki. Þetta er allt að skýrast núna dag frá degi og ég bind vonir við að það verði fyrr en síðar.“
Grein var frá því í dag að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, teldi að framlengja þyrfti þingið en starfsáætlun gerir ráð fyrir þingi ljúki á föstudaginn. Segist Ingibjörg tilbúin að vera lengur.
„Það er nú frekar regla heldur en hitt að við séum lengur en starfsáætlun geri ráð fyrir og við erum tilbúin til þess að vera hérna lengur til að klára mikilvæg mál. Staðan er þannig núna að það eru mjög mörg mál á lokametrunum,“ segir Ingibjörg og bætir við:
„Ég bind vonir við að við klárum vonandi einhvern tímann í næstu viku.“