„Það er búið að teikna upp frekar skakka mynd af ástandinu hérna, það er ekki að hjálpa til,“ segir Hávarður Gunnarsson, formaður Golfklúbbs Grindavíkur.
Spurður hvað hann eigi við með þessari fullyrðingu segir Hávarður að fólk haldi að jörðin sé galopin á vellinum.
„Þetta er ekkert í líkingu við það sem er að gerast innanbæjar þar sem stórir skorningar eru að opnast,“ segir Hávarður. Það séu þó vissulega hreyfingar á golfvellinum en engar hreyfingar á brautunum.
Blaðamenn mbl.is gerðu sér ferð til Grindavíkur í dag og ræddu meðal annars við Hávarð í golfklúbbnum.
Er fólk að stressa sig yfir því, sérstaklega heimamenn?
„Nei þeir hrista hausinn yfir því að við skulum ekki vera löngu búnir að fá leyfi til að spila,“ svarar Hávarður. Starfsmenn séu búnir að vinna í vellinum frá því í apríl.
„Starfsmenn sem eru að vinna hérna eru ekki hræddir við þessar hreyfingar sem eru í gangi því þetta er í svo rosalega litlum mæli,“ segir Hávarður.
Þið vonið að þið getið haft opið?
„Það ætti ekkert að koma í veg fyrir það. Það er búið að skanna svæðið og gefa grænt ljós á það.“
Aðspurður sagði Hávarður að einhverjir golfarar voru væntanlegir í dag.