Þingmenn pirraðir vegna svaraleysis ráðherra

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa nú margir tekið til máls á þingfundi dagsins og lýst óánægju sinni vegna þess tíma sem ráðherrar taka sér til þess að svara skriflegum fyrirspurnum þingmanna.

Gísli Rafn Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Lenya Rún Taha Karim, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata, ásamt Eyjólfi Ármannssyni, þingmanni Flokks fólksins, gagnrýndu öll þann langa tíma sem þingmenn hafa þurft að bíða eftir svörum við skriflegum fyrirspurnum til ráðherra.

Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, minnti þingmenn á að skrifstofa forseta sæi einnig um að ýta á eftir svörum ráðherra vegna fyrirspurna þingmanna.  

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir var ein þeirra sem lýstu óánægju …
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir var ein þeirra sem lýstu óánægju sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimmtán virkir dagar orðnir að engu

Þingmennirnir nefndu allir þá fimmtán virku daga sem ráðherrar hafi til þess að svara fyrirspurnum og sagðist Björn Leví til dæmis eiga elstu fyrirspurnina sem væri enn ósvarað og væri hún frá 26. september til dómsmálaráðherra.

„Við þurfum að skoða einmitt þennan hluta þingsins sem að fellur undir eftirlitsstörf hans, sem er heimild þingmanna til þess að senda skriflegar fyrirspurnir til ráðherra. Og nú er það svo, að það eru heilar 17 fyrirspurnir sem voru sendar inn á síðasta ári, sem er ósvarað. Af 171 fyrirspurn eru rúmlega 150 fyrirspurnir sem eru komnar yfir þennan 15 virkra daga skilatíma sem er áskilið í þingskapalögum. Og ég er svo heppin að eiga elstu fyrirspurnina sem var lögð inn á þing 26. september til dómsmálaráðherra,“ sagði Björn Leví í pontu.

Ekki í lagi að ráðherrar bíði til síðasta dags

Þá nefndi Arndís Anna að svör ráðherra væru forsenda þess að geta sinnt starfi sínu sem þingmaður af heilindum.

„Þetta eru upplýsingar sem ég þarf til þess að sinna sínu hlutverki sem þingmaður til þess að átta mig á því hvort og hvaða breytingar við þurfum að gera á lögum hér, eða annað. Og hvort það þurfi með einhverjum öðrum hætti að gera frekari athugasemdir við störf þessarar ríkisstjórnar,” sagði Arndís Anna.

„Ég legg áherslu á það að það er eitt grundvallarhlutverk Alþingis, samkvæmt okkar stjórnskipan, að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur þar og hann ber ekki að lítilsvirða. Það er ekki í lagi að ráðherrar bíði síðasta dags á þingvetri með að svara fyrirspurnum sem við þurfum svörin við til þess að geta sinnt okkar starfi hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka