Tjón blasir við bændum: Viðbragðshópur fundar

Hann segir að tíminn einn leiði það í ljós hversu …
Hann segir að tíminn einn leiði það í ljós hversu mikið tjónið verður. Mynd úr safni. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

„Þetta blasir þannig við okkur að það er eitthvert tjón,“ segir Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, um stöðu bænda eftir óvenju slæmt veður miðað við árstíma sem herjaði á landið í síðustu viku.

Trausti segir bændur hafa staðið sig vel í þessum aðstæðum sem hafa verið þeim erfiðar og krefjandi. „En eins og ég átti von á, þá hafa þeir náttúrulega bara heilt yfir staðið sig vel og staðið sína plikt.“

Kemur saman til fundar í dag

Stjórnvöld komu á fót viðbragðshópi, vegna áhrifar kuldatíðar á landbúnað, í síðustu viku.

Hópurinn er skipaður fulltrúum frá matvæla- og innviðaráðuneytinu, Bændasamtökunum, Ráðgjafarmiðstöðvum landbúnaðarins, almannavörnum og lögregluembættunum á Norðurlandi vestra og eystra.

„Viðbragðsteymið er að funda í dag og fara svona aðeins yfir það sem að þau hafa komist í að gera og búin að gera. Það verða vonandi einhverjar fréttir af því þegar að líður á daginn, hvernig þau horfa á þetta, sá hópur,“ segir Trausti. 

Tíminn einn leiðir tjónið í ljós

Hann segir að tíminn einn leiði það í ljós hversu mikið tjónið verður. Bregðast þurfi þó fljótt við að aðstoða þá sem verst hafa farið út úr þessu, eins og gagnvart jarðræktinni og öllu slíku. 

„Það er vont að vera með túnin kalin og ónýt og komast ekki af stað í vorverkin til að laga það sem hægt er að laga til að bjarga uppskeru sumarsins. Það þarf eitthvað að fara að horfa svolítið hraðar og meira á það,“ segir Trausti.  

Hann segist ekki getað svarað því nákvæmlega hver staðan á fræjum sé í landinu. „Það er eitt af því sem þarf að fara að skoða, hvað er til mikið fræ og hvað er til mikill áburður ef það þarf að bæta í og annað slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert