Seyðfirðingar þurfa að búa sig undir ólykt í bænum næstu daga.
Í tilkynningu sem sveitarfélagið Múlaþing sendi frá sér í morgun kemur fram að ólyktin muni stafa af kúamykju.
„Næstu daga mun Héraðsverk, verktakinn í varnargörðunum, dreifa kúamykju yfir uppgræðslusvæðin. Þetta er þekkt aðferð sem reynst hefur vel til að flýta uppgræðslu sem þá ætti að skila sér í minna ryki og grænna og fallegra svæði,“ segir í tilkynningu á vef Múlaþings.
Gert er ráð fyrir að dreifingin taki 2-3 daga og segir í tilkynningunni að henni muni fylgja ólykt sem vonandi muni ekki endast nema í 2-3 daga eftir að hún eigi sér stað.
„Framkvæmdasvið Múlaþings biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta mun hafa í för með sér fyrir íbúa og aðra sem staddir eru á Seyðisfirði,“ segir enn fremur í tilkynningunni.