Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það verði komið á hreint á næsta sólarhring hvaða mál náist að klára endanlega fyrir þinglok. Segir hún augljóst að framlengja þurfi þingið eftir föstudaginn.
Spurð hvaða mál þurfi að bíða til næsta þings segir Hildur að flokkurinn sé í þeirri vinnu núna að ákvarða hvaða mál náist að klára. Taka þurfi tillit til umfangs málanna og hvað sé tæknilega hægt að klára.
„Við erum ekki búin að ná alveg heildarsýn yfir hvaða mál við náum að klára endanlega, en við erum bara í þeirri vinnu að setjast yfir þetta saman og ég held að þetta muni taka á sig svona lokamynd á næstu klukkustundum eða sólahring eða svo,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.
Greint var frá í dag að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis teldi að framlengja þyrfti þingið en starfsáætlun gerir ráð fyrir þingi ljúki á föstudaginn. Segist Hildur vera sammála Birgi.
„Ég held að það sé alveg augljóst að þetta muni fara alla vega einhverja daga fram yfir. Við höfum sagt og stöndum við það að við verðum hér eins lengi og til þarf. Við ætlum okkur að klára mikilvæg mál og einhverjir dagar til eða frá skipta engu í því samhengi. Við ætlum okkur að klára þetta og tökum okkur þann tíma sem við þurfum til þess.“
Aðspurð segir Hildur útlendingamálin vera í forgangi.
„Það hefur verið mjög erfitt og tekið mikinn tíma en við erum mjög sátt við hvernig útfærslan á því er þegar það kemur núna úr nefnd og bíður loka afgreiðslu. Það er það sem við höfum lagt langmesta áherslu á og gerum enn.“